Heildartekjur af ferðamönnum tveggja flugleiða Icelandair, til Denver og Seattle, nema rúmum 5,6 milljörðum króna fyrir íslenskt efnahagslíf. Það jafnast á við meðalaflaverðmæti fimm skuttogara.

Þetta sagði Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, fyrir skömmu á Viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Birkir Hólm tók dæmi af tveimur flugleiðum félagsins, Denver og Seattle í Bandaríkjunum, en frá og með maí nk. verður flogið til beggja þessara staða allan ársins hring. Hagfræðistofnun HÍ hefur tekið saman fyrir Icelandair möguleg áhrif slíkra flugleiða á íslenskt efnahagslíf.

Birkir Hólm benti á að eftir að Icelandair hóf flug til Seattle í júlí 2009 hafi orðið tuttuguföldun á fjölda ferðamanna frá Seattle. Hann sagðist vænta þess sama frá Denver en félagið mun byrja flug þangað í maí nk.

Í erindi sínu sagði Birkir Hólm að beinar og óbeinar tekjur íslenska hagkerfisins af fyrrnefndum flugleiðum, leiddu til þess að heildaráhrif á íslenska hagkerfið næmu rúmum 12 milljörðum króna.

Þá varaði Birkir Hólm við því að aukin gjöld og skattar myndu draga úr fjölda ferðamanna til landsins.