Birkir J. Jónsson var rétt í þessu kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins. Hann hlaut 368 atkvæði eða 59,26%. Siv Friðleifsdóttir hlaut 238 atkvæði eða 38,33%.

Birkir sagðist, er þessi tíðindi voru ljós, vilja vera hluti af mjög samhentri forystu Framsóknarflokksins. „Það er nú eða aldrei að við framsóknarmenn stöndum saman og sækjum fram saman," sagði hann.

Hann sagði að Framsóknarflokkurinn myndi koma með ferskan anda inn í íslensk stjórnmál. „Það veitir svo sannarlega ekki af því kæru framsóknarmenn," sagði hann, í ræðu sinni, eftir að ljóst var að hann hafði unnið varaformannsslaginn.

Siv sagði við þetta tækifæri að hún myndi standa að baki nýrri forystu.

Eygló Harðardóttir var síðar kjörin ritari flokksins. Hún sigraði þar með fráfarandi ritara, Sæunni Stefánsdóttur.

(Fréttin var uppfærð kl. 19.02)