Ólafur Eiríksson hrl., verjandi Birkis Kristinssonar segir að umbjóðandi hans muni áfrýja dóm héraðsdóms Reykjavíkur sem féll fyrr í dag til Hæstaréttar. „Honum verður áfrýjað á eftir," segir Ólafur.

Fjórmenningarnir voru ákærðir fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga í tengslum við 3,8 milljarða lánveitingu Glitnis til félagsins BK-44 í nóvember 2007. Í niðurstöðum dómsins segir að Birkir, auk hinna ákærðu, eigi sér engar málsbætur og að verulegt fjárhagslegt tjón hafi hlotist af refsiverðri háttsemi þeirra. Fjórmenningarnir voru ýmist dæmdir í fjögurra eða fimm ára óskilorðsbundið fangelsi, en þeir höfðu allir neitað sök í málinu.

„Dómurinn kom Birki verulega á óvart. Hann átti von á því að málinu yrði vísað frá eða hann sýknaður,“ segir Ólafur. „Eftir að hafa lesið forsendur dómsins telur hann að niðurstaðan gagnvart honum sé byggð á röngum fullyrðingum um staðreyndir, bæði að aðkomu hans að málum og vitneskju,“ bætir Ólafur við. Í ljósi þessa liggi beinast við að beina málinu til Hæstaréttar.