Birkir Ágústsson hefur verið ráðinn markaðsstjóri Storytel á Íslandi

Birkir hefur reynslu úr fjölmiðlum og markaðsmálum, en hann hefur undanfarin ár stýrt markaðs- og kynningarmálum fyrir Sjónvarp Símans Premium og Enska boltann á Síminn Sport. Áður starfaði hann hjá 365 miðlum um árabil og stýrði þar kynningardeild Stöðvar 2 og Stöðvar 2 Sport.

Birkir er sagður í fréttatilkynningu um ráðninguna hafa sterkan grunn í markaðs- og kynningarmálum og unnið með stærstu sjónvarpsbirgjum í heimi, þar með talið HBO, Walt Disney, Showtime og English Premier League.

Hann er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði og alþjóðaviðskipti frá Háskóla Íslands. Birkir er í sambúð með Ásu Guðrúnu Guðmundsdóttir lyfjafræðingi og eiga þau tvö börn saman.

„Ég hef sérhæft mig í fjölmiðlamarkaðssetningu og áskriftarsölu undanfarin 13 ár og það verður spennandi verkefni að hefja störf hjá Storytel, alþjóðlegt fyrirtæki, með yfir eina og hálfa milljón áskrifendur og í mikilli sókn á Íslandi,“ segir Birkir.

„Það er gott að fá Birki í okkar ört vaxandi teymi, við þurfum reynslumikið fólk sem hjálpar okkur að stækka enn frekar á spennandi markaði,“ segir Stefán Hjörleifsson, landstjóri Storytel á Íslandi.