*

þriðjudagur, 21. september 2021
Fólk 28. janúar 2021 09:03

Birkir nýr markaðsstjóri Storytel

Storytel á Íslandi hefur ráðið Birki Ágústsson frá Sjónvarpi Símans, en hann hefur einnig stýrt kynningardeildum hjá Stöð 2.

Ritstjórn
Birkir Ágústsson hefur unnið með mörgum stærstu sjónvarpsbirgjum heims.
Aðsend mynd

Birkir Ágústsson hefur verið ráðinn markaðsstjóri Storytel á Íslandi

Birkir hefur reynslu úr fjölmiðlum og markaðsmálum, en hann hefur undanfarin ár stýrt markaðs- og kynningarmálum fyrir Sjónvarp Símans Premium og Enska boltann á Síminn Sport. Áður starfaði hann hjá 365 miðlum um árabil og stýrði þar kynningardeild Stöðvar 2 og Stöðvar 2 Sport.

Birkir er sagður í fréttatilkynningu um ráðninguna hafa sterkan grunn í markaðs- og kynningarmálum og unnið með stærstu sjónvarpsbirgjum í heimi, þar með talið HBO, Walt Disney, Showtime og English Premier League.

Hann er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði og alþjóðaviðskipti frá Háskóla Íslands. Birkir er í sambúð með Ásu Guðrúnu Guðmundsdóttir lyfjafræðingi og eiga þau tvö börn saman.

„Ég hef sérhæft mig í fjölmiðlamarkaðssetningu og áskriftarsölu undanfarin 13 ár og það verður spennandi verkefni að hefja störf hjá Storytel, alþjóðlegt fyrirtæki, með yfir eina og hálfa milljón áskrifendur og í mikilli sókn á Íslandi,“ segir Birkir.

„Það er gott að fá Birki í okkar ört vaxandi teymi, við þurfum reynslumikið fólk sem hjálpar okkur að stækka enn frekar á spennandi markaði,“ segir Stefán Hjörleifsson, landstjóri Storytel á Íslandi.