*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Fólk 11. janúar 2021 14:25

Birkir til Birtis Capital Partners

Birkir Jóhannsson og Erlendur Davíðsson hafa tekið höndum saman hjá Birti Capital Partners.

Ritstjórn
Birkir Jóhannsson, til vinstri, hefur gengið til liðs við Erlend Davíðsson, til hægri, sem rekið hefur Birti Capital Partners frá ársbyrjun 2020.
Aðsend mynd

Birkir Jóhannsson hefur gengið til liðs við Erlend Davíðsson hjá Birti Capital Partnersu. Báðir hafa þeir komið að fjölda viðskipta með skráð og óskráð fyrirtæki og sameina nú krafta sína með fjölbreyttri reynslu og þekkingu á fjármálamörkuðum að því er segir í tilkynningu.

Birkir Jóhannsson hefur yfir 15 ára reynslu á fjármálamörkuðum, síðast sem framkvæmdastjóri fjármála, reksturs og þróunar hjá Valitor. Áður starfaði Birkir m.a. í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka og hjá Lögmönnum Höfðabakka.

Birkir er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. Auk þess hefur Birkir lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og til réttinda sem héraðsdómslögmaður.

Erlendur Davíðsson hefur yfir 15 ára reynslu á fjármálamörkuðum. Áður en Erlendur hóf störf hjá BCP starfaði hann m.a. sem forstöðumaður hlutabréfasjóða hjá Júpíter (nú Kvika eignastýring) og í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka.

Erlendur hefur kennt ýmis fjármálafög við grunn-, framhalds- og MBA-nám Háskóla Íslands. Erlendur er með B.Sc. gráðu í hagfræði, M.Sc. gráðu í fjármálum fyrirtækja og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Birtir Capital Partners er sagt veita fyrirtækjum og fjárfestum víðtæka, markverða og óháða fjármálaráðgjöf í tilkynningu félagsins um ráðningu Birkis, en samkvæmt LinkedIn hefur Erlendur starfrækt félagið frá ársbyrjun 2020. Markmið þess er sagt vera að auka verðmæti með skilvirkum hætti fyrir viðskiptavini og aðra haghafa og hafa á sama tíma jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag.