Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segist hafa orðið vör við ákveðinn áhuga erlendra fjárfesta á Íslandsbanka. Þetta kom fram í viðtali við hana í Morgunútgáfunni á Ríkisútvarpinu .

„Ég hef kynnt bankann fyrir utan Ísland og mér finnst ótrúlega gaman að heyra að það er áhugi á eignarhaldinu frá ýmsum aðilum,“ sagði Birna.

Hún sagði hins vegar að þetta væri alltaf spurning um verð. „Við höfum náttúrulega verið að skoða hvort skráning erlendis kæmi til greina og rætt við fjárfesta tengda því. Ég held að það séu mismunandi hópar, sem hafa velt þessu fyrir sér.“

Birna segir ágætt væri ef einn banki væri í erlendri eigu að einhverjum hluta eða algjörlega þar sem slíkt myndi auka fjölbreytni.