*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 22. janúar 2017 18:37

Birna Brjánsdóttir fannst látin

Stúlkan sem hvarf eftir að hafa verið að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur fyrir viku fannst látin við Selvogsvita við Suðurstrandaveg.

Ritstjórn
Selvogsviti er austan Ölfusárósa
Aðsend mynd

Hin tvítuga Birna Brjánsdóttir sem leitað hefur verið að síðan aðfaranótt laugardagsins 14. janúar þegar hún skilaði sér ekki heim til sín eftir að hafa skemmt sér í miðborg Reykjavíkur hefur nú fundist.

725 björgunarsveitarmenn hafa komið að leitinni að Birnu undanfarna daga og stendur leit að vísbendingum enn yfir, en lögreglan telur að lík sem fannst í fjörunni við Selvogsvita fyrr í dag sé af Birnu.

Fannst í fjörunni austan við brúna yfir Ölfusá

Selvogsviti er við Suðurstrandaveg, rétt austan við Strandakirkju og Ölfusárósa, en lögregla og björgunarsveitir hafa meðal annars leitað við Óseyrarbrú við ósa Ölfusár að sönnunargögnum.

Síðast sást til Birnu á eftirlitsmyndavélum í miðborg Reykjavíkur kl. 5:25 að morgni laugardagsins 14. janúar. Talið er að hún hafi farið um borð í rauða Kia Rio bifreið við hús nr. 31 við Laugaveg sem sjómenn af grænlenska togaranum Polar Nanoq höfðu á leigu. 

Staðfest að Birna var í bílnum

Í bílnum hefur fundist blóð og lífsýni sýna að Birna var á einhverjum tímapunkti í bílnum. Skór af Birnu fundust við Hafnarfjarðarhöfn en skipið lá við bryggju í bænum. 

Hins vegar sína myndavélar frá höfninni að Birna fór ekki um borð í skipið en tveir sjómenn af skipinu sitja nú í gæsluvarðhaldi grunaðir um morðið, en þeir voru handteknir um borð í skipinu af Sérsveit Ríkislögreglustjóra á miðvikudag.

Enn leitað vísbendinga um ferðir bílsins

Lögreglan leitar enn vísbendinga um ferðir rauða Kia Rio bílsins milli klukkan 7 að morgni og 11 að morgni laugardags, milli þess sem hann sást á myndavélum við Hafnarfjarðarhöfn. 

Þriðji skipverjinn sem handtekinn var hefur verið leystur úr haldi, en einn til viðbótar var handtekinn í tengslum við umfangsmikið magn af hassi sem fannst um borð í skipinu.