Félag Kvenna í atvinnulífinu heiðraði þrjár athafnakonur við athöfn í Hörpu í dag. Birna Einarsdóttir hlaut FKA viðurkenninguna 2016, en hún er bankastjóri Íslandsbanka. Birna hefur starfað sem bankastjóri Íslandsbanka síðan í október 2008.

Í mati dómnefndar segir að undanfarin ár hafi Birna verið óeigingjörn við að miðla reynslu sinni til bæði karla og kvenna sem vilja láta til sín taka í viðskiptum eða annars staðar í samfélaginu.

Sérstaklega hefur hún lagt áherslu á starfsþróun kvenna innan Íslandsbanka og hafa konur innan bankans m.a. haft aðgang að lærimeistara sem ætlað er að efla þær í atvinnulífinu.

Þá hlaut Kolbrún Hrafnkelsdóttir, forstjóri og stofnandi Florealis, hvatningarverðlaun FKA. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og markaðssetningu á skráðum lyfjajurtum. Að mati dómnefndar er Kolbrún brautryðjandi á þessu sviði hérlendis, og er hún fyrirmynd margra ungra kvenna í lyfjageiranum.

Þá hlaut Sigríður Vilhjálmsdóttir, fjármálastjóri og eigandi Hótel Geysis og ferðaþjónustunnar þar, þakkarviðurkenningu FKA. Að mati dómnefndar FKA er Sigríður brautryðjandi á sviði ferðaþjónustu á Íslandi, en allt frá átinu 1972 hefur hún starfað á Geysissvæðinu og byggt upp fyrirtæki sitt.