Ef horft er til bankageirans sérstaklega þá virðast menn nokkuð sammála um að þó svo að bankarnir séu stöðugir þá sé bankakerfið í heild sinni of stórt. Á sama tíma er eignarhaldið á Íslandsbanka og Arion banka óskýrt í bili.

Aðspurð um þetta segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, að vissulega megi taka undir það að bankakerfið sé í heild sinni of stórt og það muni að öllum líkindum minnka eitthvað á næstu árum.

Í áramótatímariti Viðskiptablaðsins, sem kom út í morgun, má finna ítarlegt viðtal við Birnu. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu tímaritsins og er þess í stað birtur í heild sinni hér.

„Við skulum þó ekki gleyma því að þau verkefni sem bankarnir hafa verið að glíma við frá hruni hafa verið mjög mannfrek. Þar má sérstaklega nefna fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og síðan endurútreikning lána,“ segir Birna nánar aðspurð um þetta.

„Við erum núna að endurreikna um 14 þúsund lán og því fylgir svakaleg vinna. Það er ekki eins og menn ýti á einn takka fyrir öll lánin og þá sé niðurstaða þeirra komin. Það þarf að fara yfir hvert einasta mál, hafa samband við viðskiptavinina og margt fleira. Öll endurskipulagningin gerist ekki í tölvu.  Þetta á við um alla endurskipulagningu á lánabókum bankanna og það má bæta því við að það var búið að endurreikna stóran hluta af þessum lánum miðað við fyrri dóma."

Birna segir þó að þjónustustig bankanna sé mjög mikið og mun hærra en þekkist í löndunum í kringum okkur. Það tíðkist til að mynda ekki víða að hver viðskiptavinur sé í raun með sinn eigin þjónustufulltrúa og eigi í persónulegum samskiptum við hann. Viðskiptavinir erlendra banka fái í raun helst samband við símaver þegar þeir þurfa að eiga samskipti við bankann sinn.

Það er eflaust rétt að þjónustustigið sé hærra hér, en um leið hlýtur það að skapa dýrt kerfi sem kúnnarnir greiða fyrir, skýtur blaðamaður inn í.

„Sumt af því er dýrt en við erum hins vegar með hátt hlutfall ánægðra viðskiptavina," segir Birna.

„En það hafa líka verið stigin stór skref til hagræðingar. Við Íslendingar erum til að mynda mjög framarlega í því að gera hlutina rafrænt og auka rafræn bankaviðskipti. Sú þróun mun halda áfram með frekari hagræðingu fyrir bankanna og þar með viðskiptavini. Það má nefna sem dæmi að í Englandi eru menn ennþá að nota ávísanir í stórum stíl með tilheyrandi tíma og umsýslukostnaði. Það er eitthvað sem við hættum að gera fyrir mörgum árum. Ég tel líka að við séum með mjög hagkvæmt útibúanet, svona ef ég tala eingöngu fyrir hönd Íslandsbanka. En vissulega leita bankarnir, eins og önnur fyrirtæki, sífellt nýrra leiða til að gera hlutina með hagkvæmari hætti og stærð bankakerfisins mun aðlagast eftir þörfum."

Í viðtali við áramótatímarit Viðskiptablaðsins fer Birna yfir stefnumótun starfsmanna og stjórnenda, leiðtogahlutverkið, ábyrgðina sem fylgir því að stjórna, umhverfi fyrirtækja í erfiðu pólitísku andrúmslofti og gjaldmiðlamálin svo fátt eitt sé nefnt.