Þó svo að efnahagsreikningurinn sýni takmarkaðan vöxt á útlánum til viðskiptavina hefur Íslandsbanki lánað út um 50 milljarða til viðskiptavina sinna af nýjum útlánum.

Þetta kom fram í ræðu Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, á aðalfundi bankans í gær.

„Það verður áskorun að ná að lána út það fé sem greiðist af lánabókinni á ári hverju í þessu árferði,“ sagði Birna.

„Vissulega væri ásókn í lánsfé meira ef vaxtastigið væri hagstæðara – ég dreg ekki dul á það.  Önnur ástæða er sú að fyrirtæki eru mjög skuldsett nú þegar og lítið svigrúm í mörgum tilvikum fyrir nýjar lántökur. Þá er óvissan í efnahagsumhverfinu einnig áhrifaþáttur.“

Birna sagði að á síðasta ári hafi umræðan um takmarkaðan aðgang atvinnulífs að lánsfé  verið mjög hávær og bankarnir  gjarnan sakaðir um  að vera tregir í taumi þegar kom að því að lána út nýtt fjármagn. Þá hafi  því einnig verið haldið fram að innan bankana væru starfsmenn og stjórnendur haldnir ákvörðunarfælni.

„Sú gagnrýni var að mörgu leyti skiljanleg. En það má þó ekki gleyma því að þær aðstæður og sú óvissa sem bankarnir bjuggu við eftir hrun, bæði hvað varðar eignarhald, stjórnir og erfitt rekstarumhverfi gerði það að verkum að afgreiðsla mála tók lengri tíma en ella,“ sagði Birna.

„Það er hlutverk banka að meta áhættu og veita fjármagni út í atvinnulífið og þess vegna verða bankarnir að vera tilbúnir til þess að fjármagna góðar hugmyndir sem byggja á raunhæfum og vönduðum áætlunum.“