„Ég held að efnahagsreikningur bankans sé mjög sterkur. Við erum að fara aftur til upphafsins; uppistaðan í honum eru inn- og útlán, rétt eins og bankastarfsemi snérist um í eina tíð," sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

Birna segir í viðtalinu að arðsemi og hagnaður bankans það sem af er ári séu ágæt og benti á að uppgjör bankans gæfi einnig vísbendingar um að starfsemin styddi við sterkan efnahag.

Nú styttist í að endurskoðað uppgjör fyrir árið 2008 og fyrri hluta árs 2009 liggi fyrir. Birna segist sannfærð um að tölur fyrri hluta ársins muni sýna að bankinn er í góðum rekstri en ágætur hagnaður hafi verið af starfsemi bankans.

„Bankinn er að skila ágætri arðsemi og við erum að sýna að okkur hefur gengið ágætlega að eiga við ástandið.“

Að sögn Birnu verður stuðst við alþjóðlegar reikningsskilareglur (IFRS) við uppgjörið en það tekur meðal annars til þess hvernig eignir eru metnar inn í efnahagsreikninginn.

_____________________________

Nánar er rætt við Birnu í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .