Eitt af lykilverkefnum Íslandsbanka er hagkvæmur rekstur og er eitt af markmiðum bankans er að kostnaðarhlutfallið verði undir 60%. Með góðri arðsemi eigin fjár er Íslandsbanki áhugaverður fjárfestingakostur.

Þetta sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, á aðalfundi bankans sem fram fór fyrr í dag.

Birna sagði að bankinn stefndi að því að vera með yfir 30% markaðshlutdeild á lykilþjónustusviðum og bjóða viðskiptavinum upp á sérfræðiþekkingu í þjónustu við sjávarútveg, orku, sveitarfélög og ferðaiðnað.

Í máli Birnu kom fram að um 17.600 einstaklingar og um 3.000 fyrirtæki hafi hlotið einhverskonar niðurfærslu lána sem samtals nema 343 milljörðum króna hjá Íslandsbanka frá stofnun hans. Þá fjallaði Birna líka um sameiningu Íslandsbanka og Byrs sem hafi verið stór liður í hagræðingu fjármálakerfisins.

Þá sagði Birna að nokkuð hafi verið rætt um það að bankar hafi ekki verið að veita ný útlán.

„Í því samhengi er rétt að taka fram að um 85% lánsbeiðna eru samþykktar í nefndum bankans. Fyrri hluti ársins var helgaður áframhaldandi endurskipulagningu stórra fyrirtækja en á síðari hluta ársins varð aukning í nýjum viðskiptum,“ sagði Birna í erindi sínu.

„Ný útlán hjá Íslandsbanka námu um 60 milljörðum króna á árinu 2011. Stærstu verkefni ársins voru meðal annars endurfjármögnun eignarhaldsfélagsins Smáralindar og fjárhagsleg endurskipulagning N1. Þá veitti Íslandsbanki stórum félögum eins og Eimskip, Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur ný útlán. Það eru mörg spennandi verkefni sem bíða okkar á þessu sviði sem munu styrkja uppbyggingu fjármálamarkaðar á Íslandi.“

Sjá ræðu Birnu í heild sinni.