Birna Einarsdóttir-Nýji Glitnir
Birna Einarsdóttir-Nýji Glitnir
© BIG (VB MYND/BIG)
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir Landsbankann hafa ákveðið að stíga út úr því samkomulagi sem gert var meðal stjórnvalda, fjármálastofnana og lífeyrissjóða um lausn á skuldavanda heimila. Þetta segir Birna í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um hvort Íslandsbanki muni bjóða viðskiptavinum sínum sömu eða svipaðar leiðir og Landsbankinn kynnti í gær. Hún segir að auðvitað velti maður fyrir sér hver viðbrögð hins ríkisbankans, Íbúðalánasjóðs, verði.

„Áður en samkomulag ríkisins komst á voru bankarnir að bjóða mismunandi leiðir við úrlausn á skuldavanda. Íslandsbanki reið á vaðið og bauð upp á höfuðstólslækkun erlendra lána, 10% höfuðstólslækkun á verðtryggðum lánum og allt að 30% vaxtaafslátt.  Síðar kom ríkisstjórnin að borðinu og samkomulagi var náð með bönkunum, lífeyrissjóðunum og Íbúðalánasjóði um úrlausnir til að samræma aðgerðir allra aðila á markaðnum til að allir skuldarar fengju sanngjarna og samræmda lausn.

Nú hefur ríkisbankinn ákveðið að stíga út úr þessu samkomulagi. Auðvitað veltir maður núna fyrir sér hver viðbrögð hins ríkisbankans, Íbúðalánasjóðs, verða. Það var alltaf skoðun okkar viðskiptabankanna að ramminn utan um 110% leiðina væri of þröngur en þetta var niðurstaðan til að gera Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum kleift að taka þátt í samkomulaginu. Við munum vissulega skoða næstu skref,“ segir Birna.