Íslandsbanki var formlega skráður á aðalmarkað Nasdaq í morgun. Birna Einarsdóttir bankastjóri hringdi inn fyrstu viðskiptin í höfuðstöðvum bankans í Norðurturni í Kópavogi í morgun. Auðkenni bankans á hlutabréfamarkaðnum verður „ISB“.

Hlutabréfagengi Íslandsbanka í fyrstu viðskiptum var í kringum 95 krónur á hlut, eða um 20% yfir útboðsgenginu sem var 79 krónur. Þegar fréttin er skrifuð nemur velta með hlutabréf bankans yfir tvo milljarða króna.

„Skráningin markar upphaf á nýjum veruleika fyrir bankann sem nú er að snúa aftur í einkaeigu að hluta til. Á liðnum árum höfum við lagt áherslu á að byggja upp vel fjármagnaða, arðsama og stafræna bankastarfsemi. Við bjóðum nýja hluthafa velkomna, jafnt íslenska sem erlenda, og hlökkum til að halda áfram góðu samstarfi við aðila á fjármálamarkaði. Við höfum trú á framtíðinni og íslensku hagkerfi og Íslandsbanki mun áfram leggja sitt af mörkum til að styðja við hagkerfið til hagsbóta fyrir alla hagsmunaaðila,“ segir Birna í tilkynningu á vef Íslandsbanka.

Fyrir skráninguna efndi Bankasýsla ríkisins, sem heldur utan um hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka, til útboðs sem stóð yfir 7.-15. júní með 35% hlut í bankanum. Seldir voru 636 milljónir hluta að nafnvirði en heildarsöluvirði útboðsins var 55,3 milljarðar króna. Eftirspurn í útboðinu nam 486 milljörðum króna.

Um er að ræða stærsta frumútboð hlutabréfa sem fram hefur farið á Íslandi sem og stærsta frumútboð á evrópskum banka frá árinu 2018.

Viðskiptablaðið sagði frá því í gær að lífeyrissjóðir landsins hafi fengið úthlutað í það minnsta fjórðung af þeim hlutum sem voru í boði í útboðinu.