*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Innlent 11. febrúar 2019 20:15

Birna lækkaði í launum

Bankastjóri Íslandsbanka hafði í nóvember frumkvæði að því að lækka laun sín og samþykkti stjórnin það.

Ritstjórn
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Haraldur Guðjónsson

Íslandsbanki hefur sent frá sér tilkynningu, þar sem bent er á að Birna Einarsdóttir bankastjóri hafi í nóvember síðastliðnum lækkað í launum. Kemur tilkynningin í kjölfar fregna af launahækkun Lilju B. Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans. Þess má geta að Íslandsbanki mun birta uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs og árið 2018 í heild á miðvikudaginn.

„Í ljósi umræðunnar síðustu daga er rétt að taka fram að í nóvember sl. var tekin ákvörðun að frumkvæði bankastjóra að lækka laun hans um 14,1% sem samþykkt var af stjórn bankans," segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.  „Heildarlaun bankastjóra Íslandsbanka hafa hækkað um 4,6% síðastliðin tvö ár en á sama tíma hefur launavísitala hækkað um 13.2%. Ákvörðunin var tekin í ljósi stöðunnar í íslensku atvinnulífi og kjaraviðræðna sem standa yfir. Jafnframt skal tekið fram að laun bankastjóra og framkvæmdastjóra munu ekki hækka árið 2019 né taka samningsbundnum hækkunum ef til þeirra kemur."

Launahækkun Lilju, bankastjóra Landsbankans, hefur verið gagnrýnd og fyrr í kvöld barst tilkynning frá bankanum vegna hennar. Í tilkynningunni sagði meðal annars bankaráð væri „meðvitað um að kjör bankastjóra eru vissulega góð en þau eru í samræmi við starfskjarastefnu bankans, sem hluthafar hafa samþykkt, um að starfskjör eigi að vera samkeppnishæf en þó ekki leiðandi."

 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is