Íslandsbanki hefur fært lánasafn sitt niður um 600 milljarða með afskriftum, eftirgjöfum, endurútreikningum og fleiri úrræðum. Þetta segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í viðtali við Morgunblaðið í dag.

„Stór hluti þessarar fjárhæðar er til heimila og einstaklinga, þótt umtalsverður hluti hafi einnig verið til eignarhaldsfélaga og fyrirtækja. Dreifingin hefur í raun verið í samræmi við það hvernig samsetning lánasafnins var,“ segir Birna.

Birna telur það jafnframt vera ágætt fyrir íslenskan fjármálamarkað að fá erlendan aðila sem eiganda að einum bankanum. Hún segir það spennandi tilhugsun ef nýr eigandi að Íslandsbanka væri aðili sem kæmi með þekkingu sem gæti bætt enn frekar reksturinn og hjálpað til í fjármögnun.