Þær breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdastjórn Glitnis banka hf. (Glitnis) að Birna Einarsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Þróunarsviðs, mun taka við starfi framkvæmdastjóra Viðskiptabankasviðs Glitnis á Íslandi. Jón Diðrik Jónsson, sem hefur verið forstjóri bankans á Íslandi, mun láta af störfum að eigin ósk segir í tilkynningu.

Breytingarnar fela í sér að öll þjónusta við einstaklinga og fyrirtæki sem eru í viðskiptum við útibúanet Glitnis um land allt, mun heyra undir Viðskiptabankasvið á Íslandi. Birna mun áfram hafa yfirumsjón með markaðsmálum bankans hérlendis sem og erlendis. Fyrirtækjaviðskipti sem áður voru hluti af fyrirtækjasviði á Íslandi munu nú færast undir Fyrirtækjasvið (e. corporate banking) undir stjórn Guðmundar Hjaltasonar, framkvæmdastjóra.

Lárus Welding forstjóri Glitnis segir breytingarnar nú lið í því breytingaferli sem staðið hafi undanfarin misseri: ?Á undanförnum árum hefur bankinn breyst úr íslenskum banka í alþjóðlegt fjármálafyrirtæki og Jón Diðrik hefur verið
lykilmaður í að móta þá stefnu sem bankinn hefur fylgt í þeim efnum. Þessi verkefni hefur hann leyst frábærlega af hendi og ég vil nota tækifærið og þakka honum fyrir vel unnin störf á undanförnum árum. Það er mér mikið ánægjuefni að Birna Einarsdóttir skuli taka við sem framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs bankans á Íslandi. Birna hefur yfirburðaþekkingu á þeim rekstri og við bindum miklar vonir við hennar störf,? segir Lárus í tilkynningu.

Birna Einarsdóttir hefur verið starfandi í fjármálageiranum um árabil. Hún hefur undanfarið stýrt Þróunarsviði Glitnis. Frá 2004-2006 hafði hún yfirumsjón með markaðsmálum hjá Glitni og stýrði  nafnabreytingu bankans í fyrra. Áður starfaði hún hjá Royal Bank of Scotland í Edinborg í 6 ár. Þar á undan var hún markaðsstjóri bankans og stýrði meðal annars innleiðingu gæðastýringar hjá bankanum. Birna er viðskiptafræðingur frá HÍ og lauk MBA frá Edinborgarháskóla 1996.