Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að það eigi eftir að koma í ljós hvaða áhrif það muni hafa að bankinn sé nú metinn í fjárfestingarflokki af matsfyrirtækinu Fitch Ratings. Fyrr í dag birti Fitch mat á hæfi bankans er hann með lánshæfiseinkunnina BBB-/F3 með stöðugum horfum.

„Það sem gerist með þessu er að sá hópur fjárfesta sem má kaupa skuldabréf okkar stækkar verulega. Við höfum verið að vinna í því að lækka vaxtakjörin á erlendu skuldabréfaútgáfunum okkar og þegar væntanlegur kaupendahópur stækkar má gera ráð fyrir því að við náum betri kjörum í útgáfu.“ Hún segir að áherslan hafi hingað til verið lögð á að hafa erlendar útgáfur bankans frekar minni og fleiri meðan unnið sé að því að lækka vaxtakjörin.

Hvað varðar einkunnina segir hún að unnið hafi verið að því um margra ára skeið að fá einkunn í fjárfestingarflokki. „Í raun erum við búin að vera að vinna í þessu frá árinu 2008. Við höfum haldið matsfyrirtækjunum upplýstum um stöðuna hverju sinni og hvernig endurskipulagning bankans hefur gengið. Undanfarin misseri höfum við bent þeim á að þeirri vinnu sé nú lokið og að vanskilahlutföllin séu orðin sambærileg við það sem gerist erlendis.“