Þrátt fyrir óveðursskýin í alþjóðahagkerfinu hafa hlutabréfavísitölur hækkað að undanförnu. Dow Jones-vísitalan náði hæstu hæðum á mánudag, þrátt fyrir að sama dag tilkynntu tveir af stærstu bönkum heims um tap vegna stöðutöku í skuldabréfavafningum sem innihalda bandarísk undirmálslán. Skiptar skoðanir eru meðal sérfræðinga um hvað hér sé á ferð: Griðungarnir segja að það versta sé yfirstaðið vegna lausafjárþurrðarinnar í sumar og telja að bandaríski seðlabankinn muni lækka vexti í sumar á meðan bjarndýrin standa í þeirri meiningu að samdráttarskeið sé yfirvofandi.

Þrátt fyrir að sérfræðingar hafi sagt að afleiðingarnar vegna hruns á markaði bandarískra undirmálslána yrðu meðal annars leiðrétting á verðlagningu á áhættu, er ekki hægt að segja að svo hafi orðið. John Authers bendir á það í grein í Financial Times, að þróunin á Dow Jones og Standard & Poor?s vísitölunum, frá því titringurinn hófst vegna lausafjárþurrðarinnar verði seint skilgreind sem leiðrétting. Að sama skapi er ekkert lát á hinum feykilega uppgangi á hlutabréfamörkuðum nýmarkaðsríkja. Sé miðað við ársbyrjun í fyrra hafa helstu hlutabréfavísitölurnar í Bombay og Sjanghæ hækkað um112% annars vegar og 416% hins vegar. Orðið bóla kemur upp í hugann þegar litið er á þessar hækkanir og hefur Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna, gengið svo langt að segja að ástandið í Sjanghæ sé bókstaflega skilgreiningin á hlutabréfabólu.

Eins og Authers bendir á eiga þessar hækkanir sér stað meðan fjármögnunarkostnaður fyrirtækja hækkar, en ódýrt fjármagn hefur verið helsti hvati góðærisins á hlutabréfamörkuðum undanfarin ár. Jafnframt bendir þróunin á öðrum mörkuðum til þess að óvissa ríki um horfurnar: Heimsmarkaðsverð á gulli hefur til að mynda verið í sögulegum hæðum undanfarið en það er yfirleitt túlkað sem merki um ótta fjárfesta við verðbólguþrýsting og fælni þeirra til að taka stöður í verðbréfum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.