Fréttaskýringin hefur verið uppfærð til samræmis við nýjar upplýsingar sem hafa komið fram frá því að hún birtist upphaflega. Hér má nálgast excel skjal þar sem allar upplýsingar sem liggja að baki eru sundurliðaðar.

Viðskiptablaðið setti sig í vikunni í samband við þingmenn og spurði út í afstöðu þeirra til áfengisfrumvarps Vilhjálms Árnasonar um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. 52 svöruðu fyrirspurninni en 44 gáfu upp afstöðu sína. 8 Vildu þannig ekki gefa upp afstöðu sína. Af þeim þingmönnum sem svöruðu og gáfu upp afstöðu sína sögðust 22 þingmenn, eða 50% þeirra myndu greiða atkvæði gegn frumvarpinu yrði gengið til atkvæðagreiðslu í dag. Aftur á móti segjast 18, eða 41% þeirra myndu greiða atkvæði með frumvarpinu.

Í heildina eru 19 atkvæði sem óvissa ríkir um, en miðað við uppgefin svör eru andstæðingar fjórum fleiri en stuðningsmenn eins og sakir standa.

Afstaða mjög ólík eftir flokkum

Afstaða þeirra sem gefa upp afstöðu sína í málinu er mjög ólík eftir því í hvaða flokk þeir skipa sér. Þingmenn Bjartrar Framtíðar eru frekar á móti frumvarpinu en fylgjandi. Þannig eru fjórir á móti en einn fylgjandi. Afstaða eins er ókunn.

Þingmenn Framsóknarflokks virðast frekar á móti frumvarpinu. Þannig eru átta á móti frumvarpinu en þrír með af þeim sem náðist í. Þrír gefa ekki upp afstöðu sína og ekki náðist í fimm þingmenn.

Frjálslyndust er afstaða þingmanna Sjálfstæðisflokks en enginn þingmaður flokksins hefur lýst sig andsnúinn frumvarpinu. 13 segjast ætla að greiða atkvæði með, tveir segjast munu sitja hjá og tveir gefa ekki upp afstöðu sína. Afstaða tveggja er ókunn.

Af þeim þingmönnum Samfylkingar sem Viðskiptablaðið náði sambandi við lýsti enginn sig fylgjandi frumvarpinu. Fjórir segjast vera á móti og þrír gefa ekki upp afstöðu sína. Ekki náðist í tvo þingmenn flokksins.

Tveir þingmenn Pírata segjast myndu sitja hjá að öllu óbreyttu, en einn er fylgjandi.

Íhaldssömust er afstaða þingmanna Vinstri-Grænna, en allir sem náðist í eru á móti frumvarpinu. Afstaða eins er ókunn.

Costco styður frumvarpið

Sjaldgæft er að erlend stórfyrirtæki sem hafa enga starfsemi hér á landi skili inn umsögnum um lagafrumvörp. Slíkt þekkist helst í tengslum við sértæka löggjöf, til dæmis varðandi byggingu álvera eða annarra stóriðjuframkvæmda.

Costco veitti jákvæða umsögn um frumvarpið, en hún er undirrituð af yfirmanni rekstrar hjá félaginu, Roger Campbell. Það er því ljóst að félagið lætur sér frumvarpið ekki í léttu rúmi liggja, enda kann það að hafa hagsmuni af afdrifum þess.

Viðskiptablaðið innti eftir svörum við því hjá Guðmundi Ingvi Sigurðssoni hrl., sem hefur gætt hagsmuna Costco hér á landi, hvort hann teldi framgöngu frumvarpsins myndu verða ákvörðunarástæðu fyrir því að félagið kæmi hingað til lands. „Costco hefur ekki upplýst mig um nein tiltekin skilyrði hvað það varðar," segir hann. Hann tekur þó fram að heimild til sölu áfengis væri líklega hluti af því heildarmati sem ætti sér stað þegar ákvörðun um að opna hér verslun verður tekin. Niðurstaða málsins gæti því haft áhrif á framtíðaráform Costco.

Spáum frumvarpinu ekki í gegn

Frumvarpið er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Að því gefnu að frumvarpið hljóti afgreiðslu hjá nefndinni og fari í gegnum 2. og 3. umræðu í þinginu telur Viðskiptablaðið meiri líkur en minni að það verði fellt í atkvæðagreiðslu.

Af fyrrgreindum 19 óvissuatkvæðum telur Viðskiptablaðið líklegt að þau skiptist þannig að sjö muni vera jákvæð, en ellefu neikvæð. Líklega mun einn til viðbótar sitja hjá. Niðurstaða atkvæðagreiðslu yrði því 25 sem styddu frumvarpið, 33 væru á móti og fimm myndu sitja hjá, samkvæmt spá miðað við stöðuna eins og hún er nú.

Spáin byggir meðal annars á því að næstum allir þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa þegar gefið upp afstöðu sína. Afstaða stórs hluta Samfylkingar og nokkurs hluta Framsóknar er ókunn og líklegra þykir að mati blaðsins að þeir þingmenn sem óvíst sé um atkvæði hjá séu ekki hallir undir frumvarpið.

Landsmenn munu því líklega um ófyrirsjáanlega framtíð halda áfram að leggja leið sína í ÁTVR.

Spá Viðskiptablaðsins

  • Já: 25
  • Nei: 33
  • Sitja hjá: 5

Fréttaskýringin birtist upphaflega í Viðskiptablaðinu þann 20. nóvember. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér.