Óverðtryggð sjóðfélagalán Birtu lífeyrissjóðs bera nú 2,85% breytilega vexti, og eru 1,2 prósentum, eða tæpum þriðjungi, lægri en næst-hagstæðustu slíku lán, sem bera 4,04% vexti og fást hjá Arion banka. Þetta kemur fram á vef sjóðsins .

Vaxtakjör sjóðsins ákvarðast þannig að 1,1% álag er lagt á stýrivexti Seðlabankans, sem hafa verið 1,75% frá því þeir lækkuðu um 1% á viku nú í mars, en þeir voru 3% um síðastliðin áramót. Lækkanirnar tvær með viku-millibili voru teknar saman inn, og lækkuðu vextirnir því um 1% í einu vetfangi.

Skilyrði lántöku eru með þeim ströngustu á markaðnum. Sjóðfélagar þurfa að hafa greitt í samtryggingadeild undanfarna sex mánuði, eiga þriggja ára samfellda greiðslusögu í sjóðinn, eða greiða til sjóðsins á grundvelli skylduaðildar svo sem kjarasamnings. Fyrstu kaupendum býðst 75% veðhlutfall, en öðrum 65%.

1,16% verðbólguálag
Breytilegir verðtryggðir vextir Birtu eru að sama skapi lægstir á markaðnum, þó aðeins um 0,01%, en Festa lífeyrissjóður býður 1,7% vexti á meðan Birta býður 1,69%. Vilji sjóðfélagar hinsvegar fasta verðtryggða vexti út lánstímann eru þeir 3,6%.

Athygli vekur að aðeins munar 1,16% á verðtryggðum óg óverðtryggðum breytilegum vöxtum, en verðbólguálag eins árs ríkisskuldabréfa var 1,82% við lokun markaða í dag, og meira eftir því sem farið er upp vaxtaferilinn í lengd.

Birta er þó ekki sá lánveitandi sem minnst verðbólguálag býður um þessar mundir. Breytilegir óverðtryggðir vextir Íslandsbanka eru 4,2%, en breytilegir verðtryggðir 3,3%, og álagið því aðeins 0,9%.