Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt drög að frumvarpi um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. en ráðuneytið kallar nú eftir umsögnum hagsmunaaðila um drögin.

Á vef ráðuneytisins segir að efni frumvarpsins byggi að stærstum hluta á tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem fram komu í skýrslu starfshópsins frá 21. ágúst 2017. Að frumvarpið sé jafnframt í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún komur fram í stefnuyfirlýsingu hennar.

Markmið frumvarpsins sé að styrkja lagaumgjörð fiskeldis þannig að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu mögulegu skilyrði til uppbyggingar.

„Frumvarpinu er ætlað að styðja við þennan vöxt en jafnframt leggja grunn að öflugu og skilvirku eftirlit með fiskeldi. Jafnframt að stuðla að ábyrgu fiskeldi þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkisins er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Þá er frumvarpinu ætlað að mæta kröfum um náttúruvernd, gegnsæi, aukna upplýsingagjöf og betra aðgengi almennings að upplýsingum sem tengjast fiskeldi,“ segir á vef ráðuneytisins.

Kristján Þór Júlíusson segir á Facebook síðu sinni að mikilvægt sé að skapa bestu mögulegu skilyrði til uppbyggingar þar sem forsendur séu fyrir hendi til þess að um öfluga atvinnugrein verði að ræða til frambúðar.

„Jafnframt þarf að stuðla að ábyrgu fiskeldi þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkisins eru höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Ég tel að þessi grundvallaratriði fari vel saman í drögum að frumvarpi um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi sem birt hefur verið á vefsíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins,“ segir Kristján.

Þá segir einnig að í ráðuneytinu sé unnið að frumvarpi til laga um auðlindagjald í fiskeldi þar sem rekstrarleyfishafar sem stunda fiskeldi í sjókvíum verði gert að greiða auðlindagjald. Byggt er á því að auðlindagjald verði lagt á öll eldisfyrirtæki sem nýta sameiginlega auðlind en að stærstur hluti gjaldsins muni renna til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast við uppbyggingu fiskeldis.