Birta lífeyrissjóður tekur formlega til starfa á morgun, fullveldisdaginn 1. desember. Birta lífeyrissjóður varð til við sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs sem samþykkt var einróma á aukaársfundum beggja sjóða og síðan staðfest á stofnfundi Birtu 29. september 2016. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Birtu.

Birta verður því fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins með 18.000 virka sjóðfélaga og hreina eign sem nemur um 310 milljöðrum króna. Lífeyrissjóðurinn verður til húsa í Sundaboganum, Sundagörðum tvö, þar sem Sameinaði lífeyrissjóðurinn hafði áður aðsetur.

Hluti af hagræðingu í lífeyriskerfinu

Stofnun lífeyrissjóðsins er hluti af hagræðingu sem hefur átt sér stað í lífeyriskerfi landsmanna undanfarin ár sem miðar að því að styrkja innviði sjóðanna svo þeir geti mætt auknum kröfum, segir í fréttatilkynningunni.

„Lífeyrissjóðum hefur fækkað mjög á undanförnum árum. Þeir voru til að mynda 51 talsins í árslok 2002 en eru nú 24 eftir sameiningu Sameinaða lífeyrissjóðsins og Stafa lífeyrissjóðs,“ segir að lokum í tilkynningunni.