Ráðgjafarfyrirtækið Góð samskipti, sem er í eigu almannatengilsins Andrésar Jónssonar, hefur birt lista yfir 40 efnilega stjórnendur í viðskiptalífinu árið 2020 sem eru 40 ára og yngri. Er þetta í annað sinn sem Góð samskipti birtir slíkan lista og er markmið ráðgjafarfyrirtækisins að gefa listann út á tveggja ára fresti.

„Hugmyndin með listanum er að beina sjónum að ungu fólki sem er að ná eftirtektarverðum árangri á sviði stjórnunar og sem hefur fengið skjótan frama og góð tækifæri á sínu sviði. Á honum eru einstaklingar sem geta hugsanlega reynst fyrirmyndir fyrir ungt fólk sem stefnir hátt í atvinnulífinu en einnig hjálpar útgáfa hans okkur að fylgjast með öflugu fólki sem gæti komið við sögu hjá ráðningardeild Góðra samskipta," segir í færslu á Medium síðu Góðra samskipta , þar sem listinn er birtur í heild sinni.

Kynjaskipting listans yfir efnilegu stjórnendurna er hnífjöfn, sem sagt 20 konur og 20 karlmenn. Stjórnendurnir starfa innan margra mismunandi geira og fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Um 60% þeirra sem hlutu tilnefningu sem efnilegur stjórnandi voru konur sem er þriðjungs aukning frá 2018. Í færslu Góðra samskipta segir að vonandi bendi þetta til þess að konur í atvinnulífinu séu að fá meira rými en áður.

Vonarstjörnur og Íslendingar sem starfa erlendis

Í dag birti Góð samskipti að sama skapi lista yfir vonarstjörnur íslensks viðskiptalífs , sem samanstendur af fólki sem nýlega er farið að vekja athygli og á bjarta framtíð framundan á sínu sviði. Listinn samanstendur af 20 einstaklingum sem tilnefndir voru á aðallistann en komust ekki að í þetta skiptið.

Í næstu viku mun svo einn listi til viðbótar koma út, en um er að ræða lista yfir 40 Íslendinga á uppleið, 40 ára og yngri, sem starfa hjá spennandi fyrirtækjum víða um heim.