Birta lífeyrissjóður keypti í gær 30 milljónir hluta, eða sem nemur 0,8% hlut, í Nova samkvæmt flöggunartilkynningu og er nú fjórði stærsti hluthafi félagsins með 5,05% hlut að markaðsvirði 790 milljónir króna. Miðað við dagslokagengi Nova í gær má ætla að kaupverðið í gær hafi verið um 122 milljónir króna.

Birta var ekki meðal 20 stærstu hluthafa Nova eftir frumútboð fjarskiptafélagsins í júní síðastliðnum. Frá skráningu Nova í Kauphöllina hefur Birta þó hægt og bítandi stækkað hlut sinn í félaginu og er nú stærsti lífeyrissjóðurinn í hluthafahópnum.

Í lok nóvember síðastliðnum fór Birta með 3,47% hlut í Nova. Lífeyrissjóðurinn hefur því keypt ríflega 1,6% hlut í fjarskiptafélaginu í desember.

Þróun á eignarhlut Birtu í Nova

Dags. Fjöldi hluta í %
31. júlí 80.158.805 2,10%
31. ágúst 97.838.517 2,56%
30. september 107.838.517 2,83%
31. október 117.138.517 3,07%
30. nóvember 132.638.517 3,47%
7. desember 192.638.517 5,05%
Heimild: Nasdaq Iceland

Hlutabréfaverð Nova lækkaði töluvert eftir skráningu félagsins í júní. Gengið hefur hækkað aðeins aftur síðustu daga.