Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt bréfaskeyti á milli sín og Bankasýslu ríkisins á meðan útboð á 22,5% hlut í Íslandsbanka stóð yfir þann 22. mars síðastliðinn. Athygli vekur að í samskiptunum er ekki minnst á samsetningu tilboða eftir verði.

Í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins er áréttað að aldrei hafi verið borið undir ráðuneytið upplýsingar um tilboð eða tilboðsgjafa. Yfirlit yfir nafngreinda kaupendur hluta barst ráðuneytinu fyrst með bréfi frá Bankasýslu ríkisins á miðvikudaginn síðasta í kjölfar þess að ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum þann 30. mars síðastliðinn.

Sjá einnig: Allir kaupendur í útboði Íslandsbanka

Í bréfi sem Bankasýslan sendi til ráðuneytisins þegar líða tók á útboðið þann 22. mars kemur fram að samkvæmt upplýsingum sem stofnunin hafði fengið frá söluráðgjöfum höfðu á bilinu 150-200 hæfir fjárfestar skráð sig fyrir hlutum í útboðinu fyrir samtals meira en 100 milljarða króna. Bankasýslan taldi 117 krónu söluverð, sem fól í sér 4,1% frávik frá lokagengi bankans fyrr um daginn, vera innan eðlilegra marka miðað við sambærileg viðskipti.

„Bankasýsla ríkisins telur sig hafa trygg hæsta mögulega verð fyrir hlutina miðað við útboðsstærð ásamt því að hafa dregið úr þeirri langtímaáhættu sem fylgir eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum,“ segir í bréfinu. Jafnframt segir að óhjákvæmilegt hafi verið að skerða hlut einstakra bjóðenda við úthlutun.