Þrjú félög, sem samtals eiga ríflega 36% hlut í Skeljungi boðuðu í byrjun nóvember yfirtökutilboð í félaginu. Tilboðsyfirlitið hefur nú verið opinberað. Yfirtökutilboðið gildir í fjórar vikur og því ætti niðurstaða að liggja fyrir í byrjun næsta árs.

Tilboðið hljóðar upp á 8,315 krónur á hlut en gengi bréfa Skeljungs nam 8,8 krónum á hlut eftir lokun markaða á föstudag. Alls hljóðar tilboðið upp á ríflega 10 milljarða króna.

Félögin þrjú eru 365 hf., RES 9 og Loran. Leggja á öll bréf þeirra í Skeljungi inn í félagið Streng ehf.. Þar munu 365 og RES 9 fara með 38% hlut hvert um sig og RPF með 24% hlut.

365 er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljungs, er eiginmaður Ingibjargar Pálmadóttur og varamaður í stjórn 365.

RES 9 er í eigu RES II ehf., sem er í eigu hjónanna Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttir, og No. 9 Investments Limited.

RPF er í jafnri eigu Loran ehf. sem er í eigu Þórarins A. Sævarssonar, sem er stjórnarmaður í Skeljungi, og Premier eignarhaldsfélags, sem er í eigu Gunnars Sverris Harðarsonar. Þórarinn og Gunnar Sverrir eru jafnframt meðal eigenda fasteignasölunnar RE/MAX Senter. Þá seldu þeir nýlega nær allan eignarhlut sinn í Kviku banka á vel á annan milljarð króna líkt og Viðskiptablaðið greindi frá.

Sömu aðilar eru jafnframt stærstu hluthafar fasteignafélagsins Kaldalóns.

Ætla að afskrá Skeljung úr Kauphöllinni

Í þeim kafla tilboðsyfirlitsins sem fjallar um framtíðaráætlanir tilboðsgjafanna segir að þeir deili sameiginlegri framtíðarsýn fyrir félagið.

„Samstarfsaðilarnir lýstu yfir samstarfi sín á milli þann 8. nóvember 2020 og lögðu eignarhluti sína inn í félagið Streng. Þar sem sameiginlegur atkvæðaréttur samstarfsaðilanna fór yfir 30% myndaðist yfirtökuskylda skv. 100. gr. vvl.

Tilboðsgjafi telur ljóst að rekstrarumhverfi Skeljungs komi til með að taka grundvallarbreytingum á næstu árum. Tækniþróun er hröð, rafbílum fjölgar á götunum og fyrir liggur að stjórnvöld stefna að því að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Reykjavíkurborg hefur jafnframt þá yfirlýstu stefnu að fækka bensínstöðvum. Eldsneytissala er um 80% tekna Skeljungs og félagið því næmt fyrir fyrirséðum breytingum hvað orkuskipti varðar. Fyrir liggur að sambærilegar áskoranir eru í rekstri félagsins í Færeyjum enda eru orkuskipti einnig hafin þar sem hefur bæði áhrif á eldsneytissölu og orku til húshitunar,“ segir í kaflanum.

Það sé mat tilboðsgjafa að breyttar aðstæður kalli á áframhaldandi hagræðingu og breytingar á kjarnastarfsemi Skeljungs. „Tilboðsgjafi hefur uppi áætlanir um slíka vegferð. Skeljungur þarf að auka fjölbreytni tekjustofna enda eru tækifæri félagsins til innri vaxtar takmörkuð við þessar aðstæður. Því telur tilboðsgjafi að reksturinn þurfi að styrkja með kaupum á rekstrareiningum sem skapa samlegð, eins og tækifæri gefast til. Tilboðsgjafi stefnir einnig að sölu lóða, fasteigna og rekstareininga félagsins ásamt hagræðingu starfsstöðva sem ekki falla að framtíðar kjarnastarfsemi félagsins við fyrsta tækifæri þegar markaðsaðstæður leyfa. Þá telur tilboðsgjafi litla samlegð vera á milli starfsemi Skeljungs á Íslandi og í Færeyjum sem gæti leitt af sér sölu einstakra rekstareininga í öðru eða báðum löndum. Framundan eru því óumflýjanlega breytingar hjá Skeljungi að mati tilboðsgjafa.“

Íslandsbanki og Arion banki ábyrgist yfirtökutilboð tilboðsgjafa í samræmi við 103 gr. verðbréfaviðskiptalaga. Kaup tilboðsgjafa á hlutum í Skeljungi í yfirtökutilboðinu verði fjármögnuð með sambankaláni frá Íslandsbanka og Arion banka ásamt fjármögnun frá öðrum lánveitendum. Lántaka tilboðsgjafa ráðist af fjárhæð samþykktra tilboða hjá öðrum hluthöfum Skeljungs samkvæmt yfirtökutilboðinu. „Athygli er vakin á því að endurgreiðsluferli lána tilboðsgjafa gerir ráð fyrir sölu lóða, fasteigna og rekstrareininga Skeljungs á næstu misserum og í því tilliti er jafnframt gert ráð fyrir að fjármunum verði í auknu mæli úthlutað til hluthafa með arðgreiðslum eða lækkun hlutafjár félagsins, og þar með minnka efnahagsreikning félagsins.“

Það sé mat tilboðsgjafa að nauðsynlegar hagræðingaraðgerðir og endurskipulagning í rekstri Skeljungs geti valdið sveiflum í afkomu til millilangs tíma. Auk þess telji tilboðsgjafi að skráning félagsins á skipulegum verðbréfamarkaði skapi óhagræði. Beinn kostnaður félagsins sem rekja megi til skráningar þess á verðbréfamarkað sé áætlaður um 8% af hagnaði. Auk þess muni efnahagsreikningur félagsins dragast saman á næstu misserum við mögulega sölu eigna eða rekstrareininga gangi áætlun tilboðsgjafa eftir.

„Flot á hlutabréfum félagsins hefur minnkað jafnt og þétt samhliða kaupum tilboðsgjafa á hlutum í félaginu. Komi til þess að hlutafé í félaginu safnist á enn færri hendur er það líklegt til að hafa neikvæð áhrif á seljanleika bréfanna,“ segir jafnframt í kaflanum.

Tilboðsgjafi telji í ljósi þeirra breytinga og áskoranna sem félagið stendur frammi fyrir að því sé betur farið utan verðbréfamarkaðar og áformi því að afskrá félagið af skipulegum verðbréfamarkaði þegar tækifæri gefist til.  Loks segir að tilboðsgjafi telji að framtíðarsýn Skeljungs á tímum sem þessum sé best borgið í höndum samstillts hluthafahóps sem geti tekið skjótar ákvarðanir.