ELKO birtir nú verðsögu á öllum vörum á elko.is. Ku þetta nýjasta útspil ELKO vera hluti af innleiðingu nýrrar stefnu þar sem áhersla er lögð á gagnsæi, þjónustu og aukið samtal við viðskiptavini. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá raftækjaversluninni.

„Með því að sýna verðsögu á vörum í vefverslun viljum við taka þátt í umræðunni með neytendum og sýna í verki að það sem skiptir viðskiptavini máli, skiptir okkur máli,“ segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri ELKO í tilkynningunni.

„Hugmyndin um að birta verðsögu á öllum okkar vörum hefur blundað í okkur lengi en vegna tæknilegra mála höfum við ekki getað farið í verkefnið fyrr en nú. Þetta verkefni er það fyrsta af mörgum sem munu líta dagsins ljós á næstu mánuðum þar sem gagnsæi og þjónusta við viðskiptavini okkar verða í forgrunni,“ er haft eftir Braga Þór Antoníussyni sem stýrir stafrænni þróun hjá ELKO.

Verðsögunni er lýst á eftirfarandi hátt í fréttatilkynningunni:

„Gögnin eru sett fram á vöruspjaldi hverrar vöru á þann hátt að viðskiptavinir eiga auðvelt með að lesa úr þeim. Verðsagan er birt á grafi þar sem sjá má auglýst verð vöru við lok dags ásamt því að tilboðsverð vöru á gefnu tímabili er sérstaklega merkt inn á grafið. Vert er að taka það fram að það eru margir þættir sem geta haft áhrif á verðlagningu eins og t.d. innkaupsverð, gengi og opinber gjöld svo eitthvað sé nefnt.“

„Við finnum vel fyrir því að viðskiptavinir okkar eru ávalt á tánum varðandi réttindi sín og ósjaldan skapast þarfar umræður um verðbreytingar á einstökum vörum. Þessi umræða er yfirleitt hvað hæst í kringum útsölur eða aðra tilboðsdaga þegar mikið er pantað inn af nýjum vörum og verðbreytingar eru örar. Við vöndum okkur því gríðarlega við verðlagningu og kappkostum við að bjóða þekkt vörumerki á lágu verði þar sem tilboð eru auglýst á heiðarlegan hátt. Með birtingu verðsögu viljum við auka gagnsæi og stuðla þannig um leið að traustu viðskiptasambandi við viðskiptavini okkar til framtíðar, segir Arinbjörn.

„Birting verðsögu er bæði góð og rökrétt viðbót við aðra þjónustuþætti ELKO eins og 30 daga skilaréttinn, verðöryggi, viðbótartryggingu og inneignarnótur án gildistíma og verulega lengdan skilarétt í kringum jól og fermingar, bætir hann við.