Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari tók ákvörðun um að birta ákæru á hendur hjúkrunarfræðingi sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi í samráði við hina ákærðu. Ákæran var birt á vef Ríkissaksóknara í gær . Þá voru einungis tveir dagar liðnir frá því að ákæran hafði verið gefin út.

Í 156. grein laga um meðferð sakamála er málsgrein þar sem segir að, að þremur sólarhringum liðnum frá birtingu ákæru sé ákæranda skylt að láta þeim sem þess óskar í té afrit af henni. Við meðferð efnahagsbrotamála hefur Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, túlkað þetta ákvæði þannig að embættinu sé óheimilt að láta blaðamönnum í té ákærur fyrr en að þremur dögum liðnum. Blaðamenn hafa því ekki fengið ákærur frá embættinu fyrr en að þeim tíma liðnum.

Í svari við spurningu blaðamanns túlkar Sigríður Friðjónsdóttir ákvæðið öðruvísi. „Ákvæðið sem þú vitnar til vísar til þess hvenær ákæruvaldinu er í síðasta lagi skylt að láta af hendi ákæruskjal,“ segir Sigríður og tekur jafnframt fram að ákæra ásamt fyrirkalli hafi verið birt fyrir ákærðu fyrr í dag.