Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ segir koma til greina að flýta kynningu á nýju merki knattspyrnulandsliðsins eftir að mynd birtist á vef Puma með búning af nýja merkinu. Í byrjun árs kynnti Knattspyrnusamband Íslands, samhliða birtingu nýs merkis fyrir sambandið sjálft, að merkinu yrði skipt í tvennt með sérstöku merki fyrir landsliðið sem átti að birta í sumar.

„Púma er risafyrirtæki, einn af stærstu íþróttavöruframleiðendum heims, og það voru greinilega einhver mistök þar innanhús hjá þeim. Við hefðum viljað gera þetta öðruvísi, og ætluðum að segja söguna og útskýra þetta allt betur í sumar,“ segir Klara.

„Planið var að við ætluðum að opinbera nýja merkið um miðjan júní og við vorum að undirbúa það, svo þetta náttúrulega kom okkur algerlega í opna skjöldu. Við vorum búin að setja upp ákveðna tímalínu sem er alveg ljóst að er núna í uppnámi svo við erum að endurhugsa það. Við ætlum að gefa okkur smá tíma í það, fá okkur kaffisopa og ráða ráðum okkar með framhaldið.“

Klara segir að merkið sem þarna sjáist sé í raun bara hluti af því merki sem unnið hefur verið með.

„Það er margra mánaða, ef ekki ára, vinna þarna á bakvið, og mikil saga sem við ætluðum að segja og ýmsar útgáfur sem við ætluðum að kynna, og ætlum enn að gera, við höldum áfram okkar vinnu í því,“ segir Klara sem staðfestir að merkið sýni landvættina fjóra ásamt fánakrossi sem myndi eins og stórt X á milli þeirra.

„Jú, þetta eru fallegar pælingar úr sögu lands og þjóðar enda mikil hugmyndavinna þarna á bakvið. Ef ég man rétt voru þrjár auglýsingastofur sem komu inn í undirbúningsvinnuna með okkur og síðan var valin ein tillaga sem unnið var áfram með, með aðstoð UEFA, svo það hefur verið langur aðdragandi að þessu.“

Klara segir ýmsar pælingar um skjaldarmerki liggja að baki nýja merkinu, en í mörgum löndum keppa knattspyrnulið undir skjaldarmerki landsins eða stílíseraðri útgáfu af því, en það eru einmitt landvættirnir fjórir sem eru skjaldberarnir í merki íslenska lýðveldisins, líkt og var í konungsveldinu Ísland milli 1918 til 1944.

„Ég ætla nú ekki að segja að maður sé orðinn sérfræðingur, en maður hefur heyrt langar umræður um hvort skjöldur eigi að vera hringlóttur og hvernig skildir voru notaðir hérna á Íslandi.“