Sú regla að hið opinbera skuli birta nöfn umsækjenda um störf auðveldar ekki ferli við mannaráðningar, að sögn Katrínar Óladóttur, framkvæmdastjóra Hagvangs.

„Það er staðreynd að þessar reglur urðu til þess að margir áhugaverðir einstaklingar sem myndu sækja um starfið, sækja ekki um svona stöður þegar þeir eiga hættu á því að nafnið þeirra birtist í blöðunum. Þú vilt kannski sækja um þetta eina tiltekna starf. Þú ert ef til vill mjög sáttur í þínu starfi en ef þú tekur þessa áhættu að sækja um hjá opinberum aðila þá áttu á hættu að einhver óski eftir nafnabirtingu. Þá verður hið opinbera að bregðast við því og þá er nafnið þitt komið í dagsljósið,“ segir Katrín. Þó að í einhverjum tilfellum sé hægt að útskýra það fyrir vinnuveitandanum hvers vegna maður sótti um þetta eina tiltekna starf þá geti samt verið að efasemdum hafi verið stráð í huga hans, bendir hún á.

Rætt er við þau Katrínu og aðstoðarframkvæmdastjórann Leif Geir Hafsteinsson.

Leifur Geir segir að þetta minnki líkurnar á því að fólkið geti ráðið hæfasta starfsfólkið. „Vegna þess að hluti hópsins treystir sér ekki til að spila leikinn samkvæmt þessum reglum af mjög eðlileg- um ástæðum. Þetta flækir málin og gerir samkeppnisstöðu hins opinbera veikari en hún þyrfti að vera,“ segir hann.

Nánar er rætt við þau Katrínu og Leif Geir í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .