Birtingarhúsið hefur nú sett á laggirnar nýtt svið sem sérhæfir sig í markaðssetningu á netinu, notkun leitarvéla og samfélagsmiðla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Birtingarhúsinu en þar segir að eftirspurn hafi verið að aukast eftir sérfræðiþekkingu á notkun stafrænna miðla í markaðsstarfi og Birtingahúsið sé einfaldlega að svara því kalli.

„Möguleikar og umfang markaðssamskipta á netinu eru sífellt að aukast og þurfa því sérstaka athygli  í markaðsvinnunni“, segir Hugi Sævarsson framkvæmdastjóri Birtingahússins, í tilkynningunni.

Fram kemur að viðskiptavinum standi til boða alhliða ráðgjöf hvað varðar markaðssetningu á netinu, þ.e. notkun miðla og samhæfingu þeirra, öflugu eftirliti og mælingum á árangri. Með því megi stuðla að betri auglýsingaherferðum og markaðssamskiptum almennt.

„Rannsóknir sýna að stór hluti þeirra sem hyggur á kaup á vörum og þjónustu byrjar leitina á netinu. Fjölmargir vafra á netinu um leið og þeir horfa á sjónvarpið og um þriðjungur leitar að vöru á netinu sem auglýst var á skjánum,“ segir í tilkynningunni.

Birtingahúsið var stofnað á árið 2000 af nokkrum af stærstu auglýsendum landsins. Skömmu áður höfðu 20 stærstu auglýsendurnir í sjónvarpi fundað  til að fara yfir og síðan mótmæla sameiginlega hækkun á auglýsingaverðskrá Stöðvar 2, en hún þótti úr samhengi við áhorf og almenna verðlagsþróun. Í kjölfarið var ákveðið að endurvekja Samtök auglýsenda.

Það var síðan álit margra að mikil þörf væri á að stofna félag í kringum auglýsingabirtingastarfsemi sem væri óháð framleiðendum auglýsingaefnis og hefði fagleg og vönduð vinnubrögð að leiðarljósi.