Þegar nýjustu tölur Hagstofunnar eru bornar saman við spá Seðlabankans frá því í ágúst þarf að skoða fyrstu tvo ársfjórðunga ársins saman, þar sem það hafa orðið nokkrar tilfærslur á milli fjórðunga frá því að Hagstofan birti tölur um fyrsta ársfjórðung í júní sl.“ Þetta segir Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, þegar Viðskiptablaðið óskaði eftir viðbrögðum hans við þjóðhagsreikningunum sem birtir voru í síðustu viku með hliðsjón af spá bankans.

Máli sínu til stuðnings nefnir Þórarinn meðal annars dæmi um flugvél sem seld var úr landi fyrr á árinu og hafði töluverð áhrif á tölurnar. Seðlabankanum var kunnugt um þessa sölu og var í spá bankans gert ráð fyrir að hún yrði flutt út á öðrum ársfjórðungi. Nú hafa tölur Hagstofunnar fyrir fyrsta ársfjórðung verið endurskoðaðar þannig að salan er bókuð á fyrsta fjórðungi ársins. Við það verður útflutningur mun sterkari á fyrsta ársfjórðungi en Hagstofan hafði áður gert ráð fyrir en að sama skapi veikari á öðrum fjórðungi en Seðlabankinn spáði í ágúst.