Hjálmur ehf., sem á 64,9% hlut í útgáfufélaginu Birtíngi, metur eignarhlutinn á 0 krónur í ársreikningi sínum fyrir árið 2010. Birtíngur er stærsti útgefandi tímarita á Íslandi og gefur út Gestgjafann, Hús og híbýli, Mannlíf, Nýtt líf, Vikuna, Séð og Heyrt, Söguna alla, Júlíu og Heilsu auk þess sem það á bókaútgáfuna Skugga. Birtíngur tapaði 340 milljónum króna árið 2009. Félagið hefur ekki birt ársreikning fyrir síðasta ár.

Aðrir eigendur Birtings eru Austursel, eignarhaldsfélag í eigu Hreins Loftssonar, og Birtíngur sjálfur. 365 miðlar eignuðust 47% í Hjálmi í janúar en Austursel á afganginn af hlutafé félagsins. 365 eignaðist hlutaféð með því að breyta kröfu á Hjálm í nýtt hlutafé.