Útgáfufélagið Birtíngur hefur ákveðið að endurskipuleggja rekstur fyrirtækisins og kemur til með að setja fjögur tímarit á sölu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Tímaritin fjögur eru Sagan öll, Séð & heyrt, Nýtt líf og Júlía. Vegna endurskipulagningu reksturs fyrirtækisins verður átta til tíu starfsmönnum sagt upp hjá fyrirtækinu.

Bírtingur heldur þó áfram að gefa út Vikuna, Gestgjafann og Hús & híbýli.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins kemur fram að hagnaður Birtíngs dróst talsvert saman milli áranna 2014 og 2015. Árið 2014 hagnaðist fyrirtækið um 101 milljón, en í fyrra hagnaðist útgáfufélagið einungis um 682 þúsund krónur.

Framkvæmdastjóri Birtíngs er Karl Steinar Óskarsson og félagið er í 75% eigu Hreins Loftssonar í gegnum félag hans SMD.