Birtíngur útgáfufélag ehf. var rekið með 236 milljóna tapi á síðasta ári. Tap félagsins jókst milli ára en félagið tapaði 168 milljónum króna árið 2018 og 149 milljónum króna árið 2017. Samanlagt tap síðustu þriggja ára nemur því 553 milljónum króna. Birtingur gefur út tímaritin Mannlíf, Vikuna, Gestgjafann og Hús og Hýbýli.

Rekstrartekjur lækkuðu úr 448 milljónum í 392 milljónir króna milli áranna 2018 og 2019 og launakostnaður hækkaði úr 219 milljónum í 250 milljónir króna milli ára. 30 stöðugildi voru að meðaltali hjá Birtíngi á síðasta ári en félagið sagði upp 14 manns í síðustu viku til að hagræða í rekstrinum.

Fjárfestingafélagið Dalurinn eignaðist Birting árið 2017. Hlutafé Birtings var aukið um 535 milljónir króna á árunum 2017 til 2019. Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri hjá Alvogen, er eini hluthafi Dalsins e n Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, og aðrir viðskiptafélagar þeirra voru meðal hluthafa í Dalnum fram á vormánuði árið 2018 . Dalurinn var einnig stærsti hluthafi Pressunnar þegar helstu fjölmiðlar fyrirtækisins voru seldir til Frjálsrar fjölmiðlunar, í óþökk eigenda Dalsins í september 2017. Pressan varð í kjölfarið gjaldþrota.

Nýlega var greint frá því að Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefði fjármagnað kaup Frjálsrar fjölmiðlunar og rekstur félagsins þar til fjölmiðlarnir voru seldir Torgi, útgáfufélagi Fréttablaðsins, í lok síðasta árs.