*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 1. desember 2011 18:30

Birtíngur tapar 400 milljónum króna á 3 árum

Birtíngur, útgáfufélag Hreins Loftssonar, tapaði 56 milljónum króna í fyrra. Eigið fé neikvætt um 72 milljónir króna.

Ritstjórn

Tap Birtíngs útgáfufélags ehf. á árinu 2010 nam tæplega 56 milljónum króna, samanborið við tap upp á tæpar 190 milljónir króna árið áður. Þá nam tap félagsins árið 2008 um 150 milljón króna.

Þannig er samanlagt tap Birtíngs sl. þrjú ár tæpar 400 milljónir króna. Birtíngur er í eigu tveggja félaga, Hjálms ehf. og Austursels ehf., sem bæði eru í eigu Hreins Loftssonar.

Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins um 273 milljónum króna. Langtímaskuldir félagsins námu í árslok tæpum 68 milljónum króna en skammtímaskuldir um 277 milljónum króna. Bókfært eigið fé í árslok var neikvætt sem nemur tæpum 72 milljónum króna.

Birtingur gaf út tíu tímarit á árinu 2010, m.a. Nýtt líf, Mannlíf, Vikuna, Séð og heyrt, Gestgjafann auk þess sem félagið rekur bókaútgáfuna Skugga Forlag.