Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, ætlar fljótlega að birta gögn sem varpa munu ljósi á einkavæðingu nýju bankanna sem reistir voru á grunni þeirra gömlu sem hrundu árið 2009. Þetta kom fram í Vikulokum á RÚV , en haustið 2009 stofnaði Fjármálaeftirlitið nýja banka eftir fall Landsbankans, Glitnis og Kaupþings og enduðu þeir síðarnefndu í höndum kröfuhafa gömlu bankanna.

Það var mjög umdeilt á sínum tíma að kröfuhafar skyldu eignast Arion banka og Íslandsbanka og var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir harðlega gagnrýnd fyrir. Þá þótti sérstaklega mikil leynd liggja yfir ferlinu þar til skyndilega var tilkynnt um samkomulag ríkisins við kröfuhafa, sem reyndust síðan vera erlendir vogunarsjóðir að mestu leyti. Vigdís ætlar hins vegar að birta gögn sem varpa ljósi á málið.

,,Það eru vonandi ekki margir dagar þar til ég get lagt allt á borðið varðandi einkavæðingu bankanna seinni, sem var farið í á síðasta kjörtímabili, þar sem kröfuhöfum voru afhendir bankarnir með miklum heimanmundi frá ríkissjóði," sagði Vigdís í Vikulokum.

,,Ég er náttúrulega búin að vinna í þessu mjög lengi og það er ekki enn búið að létta leyndinni af skjölunum sem eru á nefndarsviði Alþingis, en ég hef unnið með þau og fengið til þess hjálp góðra manna og þetta er allt að opnast."

,,Ég birti ekki beinar upplýsingar úr þessum gögnum sem er leynd yfir, ég stend alveg við þann trúnað sem er yfir þeim gögnum, en upp úr þeim gögnum hef ég leitað skýringa og svara frá Ríkisendurskoðun og Seðlabankanum og ég er búin að fá svör þaðan sem stemmir við það, þannig ég er búin að geta náð að púsla þessu saman í eina stóra mynd."