*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Innlent 5. október 2021 07:46

Birtir til eftir mögur ár

Álverð hefur hækkað myndarlega undanfarin misseri. Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, fagnar hækkandi verði.

Sveinn Ólafur Melsted
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.
Haraldur Guðjónsson

Segja má að farið sé að birta til á álmarkaði eftir fremur mögur ár. Álverð hefur hækkað um 61% á síðustu tólf mánuðum. Í september í fyrra kostaði tonn af áli 1.786 dollara en nú er það komið í 2.872 dollara. Fyrir skömmu skreið verðið í 3.000 dollara um tíma. Verð á áli hefur ekki verið hærra síðan um mitt ár 2008 en þá kostaði tonnið ríflega 3.000 dollara. Þegar alheimsfjármálakrísan skall á haustið 2008 hrapaði verðið og í lok árs var það komið niður í um 1.300 dollara.

„Þetta eru mikil viðbrigði frá því sem áður var," segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda á Íslandi. Undanfarin ár hefur lágt álverð bitnað á rekstri álfyrirtækjanna hér á landi og segir Pétur þessa verðhækkun því mikið fagnaðarefni.

„Þetta hefur m.a. skilað sér í því að Norðurál hefur ákveðið að ráðast í 15 milljarða króna fjárfestingu í nýjum steypuskála. Þetta er mikilvæg innspýting í það gróskumikla atvinnulíf sem er að myndast á  Grundartanga. Fjárfestingin hefur í för með sér meiri áframvinnslu, afurðirnar verða sérhæfðari og virðismeiri, og auk þess loftslagsvænni þar sem unnið er úr fljótandi áli. Annars þyrfti orku til að bræða það á meginlandinu. Nú þegar er öll framleiðsla ISAL virðismeiri afurðir, flóknar sérhæfðar málmblöndur, og Fjarðaál framleiðir víra og málmblöndur. Þannig hafa mikilvæg skref verið stigin í áframvinnslu og auðvitað liggur framtíðarþróunin þar, eins og gerst hefur í sjávarútvegi, þar sem magnið eykst ekki verulega en meira virði fæst úr aflanum."

Pétur bendir á að átt hafi sér stað töluverð hagræðing og niðurskurður meðal álframleiðenda hér á landi til þess að mæta lágu álverði. Því hafi safnast upp fjárfestinga- og viðhaldsþörf. „Nú er borð fyrir báru og það eru góðar fregnir fyrir þann klasa fyrirtækja sem skapast hefur í kringum álverin. Í fyrra keyptu álverin vörur og þjónustu af hundruðum innlendra fyrirtækja fyrir 24 milljarða og er þá orkan undanskilin, en áætla má að orkukaup hafi numið um 48 milljörðum."

Offramleiðsla í Kína grafið undan verði

Pétur segir að eftirspurn áls á heimsvísu hafi vaxið jafnt og þétt ár frá ári. „Ál er léttur en á sama tíma sterkur málmur og hafa bílaframleiðendur til að mynda notað málminn í auknum mæli til þess að létta bílaflotann, draga þannig úr brennslu eldsneytis og koma til móts við kröfur stjórnvalda um minni losun. Ál hefur ekki síður skipt miklu máli í rafbílavæðingunni þar sem hann gerir bíla á borð við Tesluna léttari og komast þeir þar með lengra á hleðslunni," segir Pétur.

„Víða er verið að endurnýja raforkukerfi til þess að bæta við endurnýjanlegri orku og þar er ál lykilefniviður, enda leiðir það vel rafmagn. Þar að auki er ál hringrásarvænn málmur sem heldur upprunalegum gæðum við endurvinnsluna og má því nota álið aftur og aftur. Svo nýtist það vel til að auka endingartíma matvæla og lyfja eins og við þekkjum. Það er því ekki skrítið að eftirspurnin fari vaxandi."

Á undanförnum árum hafi vandinn verið sá að Kína hafi gerst æ fyrirferðarmeira á álmörkuðum. „Eins og alkunna er, þá eru tengslin milli framboðs og eftirspurnar ekki sterk í miðstýrðum ríkjum. Því hefur offramleiðslan á áli í Kína verið töluverð á undanförnum árum. Ekki bætir úr skák að þar eru gríðarlegar niðurgreiðslur frá ríkinu, eins og kom fram í úttekt OECD fyrir um tveimur árum," segir Pétur.

Offramleiðslan og niðurgreiðslurnar í Kína hafa grafið undan heimsmarkaðsverði á áli, að sögn Péturs, og var það ekki fyrr en nokkuð nýlega sem önnur ríki ákváðu að bregðast við. „Evrópusambandið, Bandaríkin og fleiri ríki hafa brugðist við með því að hækka tolla á kínverskt ál. Ef til vill spilar það inn í viðnámið á mörkuðum að Kína komist síður upp með að grafa undan heilbrigðri samkeppni. Einnig eru teikn á lofti um að stjórnvöld í Kína hafi áttað sig á að einhver efri mörk séu á nýtingu strandaðrar kolaorku til álframleiðslu. Það veldur mikilli sótmengun í stórborgum og auðvitað gríðarlegri losun gróðurhúsalofttegunda."

Pétur segir að í áliðnaði geri fyrirtæki plön til langs tíma og séu því fullmeðvituð um sveiflur álverðs. „Rekstur þessara fyrirtækja snýst um að stíga öldurnar. Ef litið er til sögunnar, þá sveiflast verðið upp og niður. En miðað við orð greiningaraðila þá virðist bjart framundan á álmörkuðum."

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Orka & iðnaður. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Pétur Blöndal Samál ál