Gengi bréfa kanadíska snjallsímaframleiðandans Research In Motion, sem framleiðir Blackberry símana, hækkuðu um ein 8,1% í gær eftir að fyrirtækið tilkynnti að komið hefði inn pöntun fyrir eina milljón snjallsíma af gerðinni Blackberry 10. Þetta er stærsta einstaka pöntunin í sögu fyrirtækisins. Í vikunni hafa bréf fyrirtækisins hækkað um ein 19%.

Ekki er vitað hver það er sem setti inn pöntunina og RIM vill aðeins gefa upp að um gamlan viðskiptavin sé að ræða. Þá er ekki vitað hvort pöntunin eigi við um Q10 eða Z10 símana eða blöndu af báðum tegundum. Það sem af er degi í dag hefur hækkunin eilítið gengið til baka og hafa bréf fyrirtækisins lækkað um 0,64%.