*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 28. september 2021 10:41

Birtu auglýsingu mánuði of seint

Stapi lífeyrissjóður mun leita eftir því að gera sátt við Seðlabanka Íslands vegna brota gegn flöggunarskyldu.

Jóhann Óli Eiðsson

Rúmlega mánuður leið frá því að Stapi lífeyrissjóður fór niður fyrir 5% eignarhlut í Festi og þar til tilkynning þess efnis var birt í kauphöllinni. Þetta kemur fram í téðri tilkynningu sem birtist þar í dag.

Samkvæmt lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu ber að senda tilkynningu til útgefanda og Fjármálaeftirlitsins í hvert sinn sem eigandi fer undir eða yfir 5% þröskuld í félagi. Hið sama gildir um 10, 15, 20, 25, 30, 35, 40, 50, 66,67 og 90% þröskulda. Slíka tilkynningu skal senda án tafar og eigi síðar en innan fjögurra viðskiptadaga frá því það gerist.

Í tilkynningu Stapa núna segir að sjóðurinn hafi farið niður fyrir 5% þröskuldinn þann 27. ágúst síðastliðinn og því hefði borið að tilkynna það eigi síðar en 2. september. 

„Sú töf sem orðin er á birtingunni er vegna mistaka hjá Stapa og mun Stapi óska eftir því við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands að ljúka máli vegna brots á framangreindri grein með sátt,“ segir í tilkynningunni.