Rúmlega mánuður leið frá því að Stapi lífeyrissjóður fór niður fyrir 5% eignarhlut í Festi og þar til tilkynning þess efnis var birt í kauphöllinni. Þetta kemur fram í téðri tilkynningu sem birtist þar í dag.

Samkvæmt lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu ber að senda tilkynningu til útgefanda og Fjármálaeftirlitsins í hvert sinn sem eigandi fer undir eða yfir 5% þröskuld í félagi. Hið sama gildir um 10, 15, 20, 25, 30, 35, 40, 50, 66,67 og 90% þröskulda. Slíka tilkynningu skal senda án tafar og eigi síðar en innan fjögurra viðskiptadaga frá því það gerist.

Í tilkynningu Stapa núna segir að sjóðurinn hafi farið niður fyrir 5% þröskuldinn þann 27. ágúst síðastliðinn og því hefði borið að tilkynna það eigi síðar en 2. september.

„Sú töf sem orðin er á birtingunni er vegna mistaka hjá Stapa og mun Stapi óska eftir því við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands að ljúka máli vegna brots á framangreindri grein með sátt,“ segir í tilkynningunni.