Frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, kom færandi hendi á Landspítala á föstudaginn. Þar staðfesti hún við forstjóra spítalans, Pál Matthíasson, rétt rúmlega 15 milljóna króna framlag kirkjunnar til Geislans, sem styður Landspítala til kaupa á línuhraðli. Línuhraðall er afar mikilvægt geislalækningatæki sem einkum er notað við krabbameinslækningar. Verið er að taka það í notkun á spítalanum.

Þjóðkirkjan hóf fyrir tilstuðlan biskups söfnunarátak fyrr á þessu ári og tóku þátt söfnuðir, félagasamtök og einstaklingar um land allt. Fjölmargir komu að átakinu og var bryddað upp á fjölbreytilegustu söfnunarleiðum, s.s. vöfflusölu, bingóspili, tónleikum, biblíumaraþoni og 30 tinda áheitafjallgöngum.

Biskup sagði við þetta tækifæri að ánægjulegt hefði verið að sjá söfnuði landsins sameinast um þetta verkefni fyrir þjóðarsjúkrahúsið.