Nú er runninn út umsóknarfrestur um þrjú embætti sem innanríkisráðherra auglýsti laus til umsóknar í júlímánuði, embætti héraðssaksóknara, varahéraðsaksóknara og hæstaréttardómara.

Umsækjendur um embætti héraðssaksóknara voru Björn Þorvaldsson, Bryndís Björk Kristjánsdóttir, Hulda Elsa Björgvinsdóttir, Jón H. Snorrason og Ólafur Hauksson, samkvæmt frétt á vef innanríkisráðuneytisins .

Um embætti varahéraðssaksóknara sóttu Arnþrúður Þórarinsdóttir, Björn Þorvaldsson, Daði Kristjánsson, Hulda Elsa Björgvinsdóttir og Kolbrún Benediktsdóttir.

Þá sóttu Davíð Þór Björgvinsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson um embætti hæstaréttardómara.

Innanríkisráðherra ákvað að fela nefnd að fara yfir umsóknirnar og á hún að skila ráðherra rökstuddu áliti á hæfni umsækjenda. . Gert er ráð fyrir að skipað verði í embætti héraðssaksóknara frá og með 1. september 2015 og skal hann vinna að undirbúningi að því að embætti héraðssaksóknara taki til starfa 1. janúar 2016. Gert er ráð fyrir því að skipað verði í embætti varahéraðssaksóknara frá og með 1. janúar 2016.