*

miðvikudagur, 21. apríl 2021
Innlent 2. mars 2021 07:01

Bitcoin eins og klæðalaus keisari

Jón Daníelsson telur að rafmyntir muni annað hvort koma í staðinn fyrir valdboðsgjaldmiðla að fullu eða ekki ná neinni fótfestu.

Ritstjórn
Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics
Eva Björk Ægisdóttir

„Á sama tíma og bitcoin heldur áfram að hækka í verði, þá er því haldið fram í þessum pistli að flest okkar myndu ekki vilja lifa í samfélagi þar sem bitcoin þrífst. Sem betur fer þýða innri mótsagnir og öfugsnúnar afleiðingar af velgengni rafmynta að þeim er ætlað að bresta.“ Svona hefst grein Jóns Daníelssonar, prófessors í hagfræði við London School of Economics, sem var birt á vefsvæðinu Voxeu föstudaginn síðasta.

Rafmyntin bitcoin hækkaði verulega í verði í upphafi árs en markaðsvirði hennar náði yfir 1.000 milljörðum dollara í febrúar síðastliðnum. Verðmæti bitcoin byggir einungis á væntingum um velgengni í framtíðinni, þar sem þær eru ekki mjög nytsamlegar í dag, að sögn Jóns. Ef ekkert meira liggur að baki verðmæti rafmyntarinnar mun einn daginn lítill drengur kalla „keisarinn er ekki í neinum fötum,“ og verðið mun hrapa. 

„Rafmyntir verða að veita einhverja mikilvæga þjónustu til að réttlæta þeirra háa verðmat, því annars mætti líkja því að eiga Bitcoin við að safna frímerkjum eða baunabörnum (e. beanie babies) – minniháttar athæfi sem réttlæti ekki 51.000 dollara verð [á bitcoin].“

Jón segir að bitcoin áhugamenn gefi loðin svör þegar þeir eru spurðir um hvað velgengni þýði fyrir rafmyntina, annað en bara að hún hækki í verði. Þeir virðist hrifnari af rökum klæddum dulspeki frekar en hagfræðilegum röksemdarfærslum. 

Mikilvægasta viðmiðunin fyrir velgengni sé að rafmyntin verði notuð í verslunarviðskiptum, líkt og Tesla hyggst bjóða sínum viðskiptavinum upp á. Ef ekki verður hægt að skipta á rafmyntinni fyrir raunveruleg gæði, þá verði þær ekki farsælar. 

Bitcoin eigendur yrðu ríkasta fólkið í heimi

Jón heldur því fram að rafmyntir muni annað hvort koma í staðinn fyrir valdboðsgjaldmiðla (e. fiat money) að fullu eða ekki ná neinni fótfestu sem alvöru gjaldmiðill en bætir jafnframt við að hann hafi litla trú á rafmyntunum. 

Ef bitcoin verður ofan á og kaupmáttur rafmyntarinnar verður jafn mikill og M1 peningamagnsins þá mun verð á bitcoin hækka í ríflega 1,5 milljónir dollara. Fyrir vikið yrðu eigendur Bitcoin ríkasta fólk í heimi, þar sem það ætti allan peninginn í heiminum, þrátt fyrir að hafa ekki lagt neitt fram til samfélagsins. Ójöfnuðurinn í heiminum myndi aukast verulega og afleiðingar þess verða samfélagsóeirðir og popúlismi. 

Hann segir að ef bitcoin verði sá gjaldmiðill sem við notum þá þurfi rafmyntin að verða reiknieining. Núverandi sveiflur á verði bitcoin komi þó í veg fyrir það því hvaða kaupmaður vill breyta verðum í hvert skipti sem bitcoin fer upp eða niður í verði og hver vill miklar sveiflur í kaupmætti launa eða sparnaðar? Rafmyntin verði því að komast í jafnvægi til að verða notuð í viðskiptum, sem er einmitt forsendan fyrir virði hennar. 

Hins vegar verði afleiðingar og innri mótsagnir rafmyntarinnar augljósari eftir því sem farsæld hennar eykst. Það mun því koma að því að verð á bitcoin hrapi niður í núllið. 

„Bitcoin er bóla. Það er skiljanlegt að fylgja bólunni eins lengi og mögulegt – komdu þér bara út innan tíðar. Vertu á varðbergi fyrir litla stráknum sem kallar „keisarinn er ekki í neinum fötum“, skrifar Jón að lokum.   

Stikkorð: Jón Daníelsson Bitcoin