Rafmyntin Bitcoin eyðir meiri raforku á ársgrunvelli heldur en þjóðir á borð við Argentínu, Holland og Sameinuðu arabísku furstadæmin samkvæmt greiningu Cambridge háskóla. BBC greinir frá.

„Gröftur“ (e. mining) eftir rafmyntinni er orkufrekur og segir í greiningu Cambridge háskólans að heildarraforkunotkun vegna Bitcoin graftar nemi 121,36 teravöttum á ársgrundvelli. Ólíklegt sé að orkunotkunin minnki nema verð rafmyntarinnar falli verulega.

Gengi Bitcoin náði sögulegu hámarki á dögunum er gengið stóð í 48 þúsund dölum, í kjölfar tilkynningar rafbílaframleiðandans Tesla um að fyrirtækið hafi fest kaup á Bitcoin fyrir 1,5 milljarða dala og að það stefndi á að taka við rafmyntinni sem greiðslu í framtíðinni.

Gagnrýnendur hafa bent á að þessi stóra fjárfesting Tesla í Bitcoin grafi undan umhverfisvænni ímynd fyrirtækisins. Er jafnframt bent á að með hækkandi verði Bitcoin fari meiri og meiri raforka í að grafa eftir rafmyntinni, þar sem fleiri tölvur séu gagngert settar upp til að grafa eftir rafmyntinni.