Bitcoin féll skarpt í morgun eftir nokkra hækkun í kjölfar tilkynningar bandaríska seðlabankans um lækkun stýrivaxta og 700 milljarð dala innspýtingu. Rafmyntin hefur nú fallið um helming síðastliðinn mánuð, og féll um helming á tveimur dögum fyrir helgi, en hefur hækkað nokkuð aftur síðan.

Margir hafa bundið vonir við að aðgerðir á borð við boðaða innspýtingu seðlabankans vestanhafs, sem auka mun peningamagn í umferð, myndi auka virði Bitcoin, þar sem rafmyntin hefur innbyggðan hámarksfjölda og muni því ekki verða verðbólgu að bráð líkt og lögeyrir þjóðríkja.

Verðþróunin í morgun bendir hinsvegar til annars, en verðið hefur þó verið að þokast upp á við eftir því sem liðið hefur á daginn, og stendur þegar þetta er skrifað í rétt rúmum 5 þúsund dölum, eftir að hafa farið í um 4.500 fyrir hádegi.

Ein eining rafmyntarinnar gekk kaupum og sölum á um 10 þúsund bandaríkjadali – um 1,35 milljónir króna á núverandi gengi – fyrir mánuði, en hefur verið að gefa eftir síðan eftir því sem kórónufaraldurinn hefur versnað.

Eftir að hafa verið í um 8 þúsund dölum á miðvikudag fór verðið undir 4 þúsund á föstudag, en fór svo aftur yfir 5 þúsund þegar leið á daginn.