Fyrir tæpu ári fjallaði Viðskiptablaðið um Bitcoin með yfirskriftinni „Bóla eða bylting?“ . Verð rafmyntarinnar hafði þá hækkað úr tæpum 1.000 Bandaríkjadölum í upphafi árs, í rúma 17.000 dali. Fjórum dögum seinna, þann 18. desember 2017, náði það 19.396 dölum, og fór yfir 20.000 í sumum kauphöllum.

Gamanið varði þó ekki lengi fyrir þá sem keyptu rafmyntina um það leyti í von um skyndigróða. Fimm dögum síðar var verðið komið undir 15.000 dali, og í byrjun febrúar féll það undir 10.000. Þegar þetta er skrifað stendur verðið í tæpum 4.200 dölum, en fór niður í rúma 3.500 síðasta sunnudag.

Eignaflokkur í algerum sérflokki
Kristján Ingi Mikaelsson, framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs Íslands, segir fallið vissulega hafa verið hátt frá toppnum um síðustu jól. Það sé þó ekkert nýtt við þessa þróun, verðið hafi fallið svipað áður, en til lengri tíma litið hafi verðið ávallt farið hækkandi. „Fæstir bjuggust við að þetta færi svona neðarlega. Það er þó mjög þekkt í sögu bitcoin að hún taki út svona leiðréttingu. Verðfallið nú er orðið jafn stórt og stærsta leiðréttingin hingað til í prósentum. Þegar þetta fór úr 1.200 dölum niður í 160 var það alveg sama hlutfallslega leiðrétting, tæp 90%. Á þeim tíma sagði fólk það sama og margir eru að segja núna, þetta væri alveg dautt og færi aldrei jafn hátt aftur,“ segir hann og bætir við að lækkunin sé ekki lengur mæld í milljónum dala, heldur milljarðatugum.

Hann segir að margir virðist ekki átta sig fyllilega á eðli Bitcoin. „Þetta er auðvitað bara eignaflokkur sem er mjög sveiflukenndur, og Bitcoin er í algerum sérflokki þar. Fólk áttar sig ekki á því hvaða skepnu það er að tala um. Tímanæmnin á Bitcoin er allt önnur en margir eru kannski vanir. Margir sem hafa verið að kaupa sig inn í rafmyntir er fólk sem hefur aldrei átt hlutabréf. Fjárfestingar virka ekkert þannig að þú hoppir inn og þremur vikum seinna ertu búinn að fimmfalda peninginn,“ segir hann og bendir á að hefði hann keypt hlutabréf í tæknirisanum Apple fyrir 7-8 vikum hefði virði fjárfestingarinnar nú lækkað um fjórðung. „Vandamálið er að fólk setur kannski of mikið inn og er alltaf að fylgjast með þessu. Þú þarft að horfa á lengra tímabil. Yfir hvaða 3 ára tímabil sem er hefur Bitcoin alltaf hækkað í verði.“

„Töfra-hipstera-internetpeningur“
Hann segir að ímynd margra af Bitcoin sé mjög brengluð. „Umfjöllunin er svolítið mikið þannig að þetta sé einhver töfra-hipstera-internetpeningur. Bitcoin er gerð svolítið tortryggileg af fjölmiðlum og það vantar meiri skilning á þessu.“

Þeir sem eru í þessu af alvöru horfa að sögn Kristjáns allt öðrum augum á verðsveiflur, en jafnvel þeir geti þó orðið skelkaðir ef fallið er nógu hátt. „Þeir sem eru stærstu aðilarnir í þessu eru bara svolítið allt eða ekkert, þeir hafa óbilandi tiltrú á þessu, ólíkt þeim spákaupmönnum sem hafa verið að kaupa undanfarið. Fólk sem er búið að vera lengi í þessu hefur séð þetta það oft að það er ekkert að kippa sér upp við þetta. Að vísu fóru margir, sem ég hef ekki séð kippa sér mikið upp við sveiflur almennt, að verða órólegir þegar verðið lækkaði úr 6.000 dölum í rúma 3.000. Ef þetta fer lengra þá er þetta í fyrsta skipti í sögunni að fara dýpra, og það mun alveg hræða fólk, sama hversu lengi það hefur verið í þessu. Ef við brjótum 3.000 múrinn þá gæti þetta farið hratt niður í 2.000.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .