*

laugardagur, 25. september 2021
Erlent 26. júlí 2021 10:07

Bitcoin hækkað um 20% á einni viku

Ummæli Elon Musk og vangaveltur um að Amazon ætli að taka við rafmyntum sem greiðslumáta eru talin meðal ástæðna fyrir hækkuninni.

Ritstjórn
epa

Bitcoin er aftur komið á fleygiferð en rafmyntin hefur hækkað um meira en 20% á einni viku. Verð á Bitcoin stendur nú í 38,2 þúsund dölum en gengið var undir 30 þúsund dölum á miðvikudaginn síðasta.

Nýleg ummæli frá þekktum stuðningsmönnum rafmynta hafa ýtt undir verðið, að því er kemur fram í frétt WSJ. Er þar vitnað sérstaklega í ummæli Elon Musk í síðustu viku um að geimflaugafyrirtækið SpaceX hafi fjárfest í Bitcoin. Hann sagði jafnframt að Tesla myndi „mjög líklega“ byrja að taka aftur við rafmyntinni sem greiðslumáta.

Sjá einnig: SpaceX líka á Bitcoin vagninum

Einnig eru vangaveltur uppi um möguleg áform Amazon fyrir rafmyntir og sambærilega tækni eftir að fyrirtækið auglýsti eftir sérfræðingi í rafmyntum og bitakeðjum (e. blockchain). Ýmsir netverjar hafa litið á þetta sem merki um að Amazon gæti einn daginn gert viðskiptavinum sínum kleift að greiða fyrir vörur og þjónustu með rafmynt.  

Gengi Bitcoin er þó ennþá 40% lægra en í apríl síðastliðnum þegar það náði nærri 65 þúsund dölum. Gengi flestra rafmynta lækkuðu í kjölfarið, meðal annars vegna frétta um að kínversk stjórnvöld ætli að taka harðar á notkun og greftri eftir rafmyntum.

Stikkorð: Amazon Bitcoin rafmyntir