Síðan verslun hófst með framvirka samninga um rafmyntina Bitcoin á sunnudaginn síðasta sunnudag hefur verð hennar hækkað enn frekar en verið hefur undanfarið eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um .

Klukkan 23:00 á sunnudagskvöld, þegar fyrirtækið Cboe Global Markets Inc. hóf viðskipti með samningana hækkaði gengi myntarinnar á einu bretti um rúmlega 8%, en síðan þá hefur gengið hækkað um tæplega 13%.

Framvirkur samningur sem rennur út í janúar næstkomandi var seldur á 15 þúsund dali, eða sem jafngildir um 1,57 milljónum króna, hækkaði upp í 16.660 dali á fyrstu sex mínútnum viðskipta, eða sem nemur 11% hækkun að því er WSJ greinir frá.

Heimasíðan hökti

Á mánudagsmorgun var samningurinn kominn upp í 17.500 dali, meðan rafmyntin sjálf var komin upp í 16.635,05 dali, en þegar þetta er skrifað stendur hún í 16.389,78 dölum. Áhuginn á viðskiptunum olli Cboe vandamálum og tilkynnti félagið að vegna umferðar um heimasíðu félagsins hefði síða þess verið hæg eða jafnvel óvirk um tíma.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hyggst CME Group Inc. markaðsviðskiptafyrirtækið sem staðsett er í Chicago hefja viðskipti með framvirka samninga í rafmyntinni á sunnudaginn komandi.

Fimm félög í heildina sem séð hafa um viðskipti með bitcoin hafa samið við Cboe og CME um viðskiptin, en gagnrýnendur hafa varað við að vegna þess að tiltölulega fáir aðilar eigi mjög stóran hluta af bitcoin safninu sem þegar sé til, þá sé auðvelt að handstýra verðsveiflum myntarinnar.

Sjá um þriðjung allra viðskipta

Þau fjögur félög sem sömdu við CME höndla með um 10% af öllum daglegum viðskiptum með bitcoin, en hlutfallið fer upp í um þriðjung ef einungis er skoðað þau viðskipti sem fara fram milli bitcoin og Bandaríkjadala. Segist CME hafa reynt að draga úr stýringu og misnotkun viðskipta, og munu þau ekki leyfa viðskipti við ónafngreinda aðila.

Cboe mun nýta Gemini til að ákvarða verðið sem samningar fyrirtækisins miða við þegar uppgjör þeirra er framkvæmt, en tölurnar miða við um 1,3 milljón dala uppboð, sem er dropi í hafið miðað við alþjóðleg viðskipti með Bitcoin.