Verð rafmyntarinnar Bitcoin tók 17% stökk í 38 þúsund dali eða rétt um 5 milljónir króna stykkið í morgun eftir að milljarðamæringurinn og Tesla-stofnandinn Elon Musk breytti persónulegri lýsingu (e. bio) sinni á Twitter í #bitcoin.

Verð Bitcoin hafði verið nokkuð stöðugt í um 32 þúsund dölum síðastliðna viku, en rafmyntin hefur verið á talsverðri siglingu á þessu ári, eftir að hafa brotið 20 þúsund dala múrinn um miðjan desember og náð hámarki í yfir 40 þúsund dölum í ársbyrjun.

Viðskiptamiðillinn Business Insider segir fordæmalausar björgunaraðgerðir og peningaprentun vegna heimsfaraldursins og vaxandi áhyggjur af verðbólgu meðal þess sem þakka megi gott gengi Bitcoin nýverið. Að auki er fárið í kring um hlutabréf Gamestop og fleiri félaga – sem hafa hækkað ævintýralega þökk sé kaupum almennra fjárfesta á Reddit – sagt hafa átt þátt í hækkun Bitcoin í morgun.

Musk setti einnig mark sitt á Gamestop málið svokallaða þegar hann tísti „Gamestonk!!“ nú á miðvikudag, en orðið er samsetning nafns tölvuverslunarinnar og orðsins „stonk“, sem er afbökun á enska orðinu „stock“ fyrir hlutabréf, sem meðlimir spjallborðsins r/Wallstreetbets leika sér gjarnan að. Tístið innihélt einnig hlekk á spjallborðið fyrrnefnda, og bréf Gamestop hækkuðu um rúm 150% í kjölfarið.

Ekki þarf svo að fjölyrða um áður stormasamt samband Musk við Twitter og fjármálayfirvöld .